131. löggjafarþing — 13. fundur,  20. okt. 2004.

Brottfall úr framhaldsskóla.

189. mál
[15:28]

Hjálmar Árnason (F):

Virðulegur forseti. Það verður að hafa í huga hverjar eru ástæður brottfalls. Þær eru auðvitað margvíslegar og málið alls ekki einfalt. Í fyrsta lagi má nefna að þegar atvinnuástand er mjög gott og mikil þensla í samfélaginu virðist það vera mikil freisting hjá ungu fólki að fara og útvega sér atvinnu í stað þess að sitja í skóla. Það snertir með öðrum orðum ákveðið verðmætamat og lífsgæðakapphlaup hjá ungu fólki sem er verulegt áhyggjuefni.

Í öðru lagi má segja að starfsgreinaráðin sem skipuð eru fulltrúum atvinnulífsins hafi ekki virkað sem skyldi. Lagarammi er til staðar þar sem gert er ráð fyrir að atvinnulífið í gegnum starfsgreinaráðin þrýsti á skólana um að taka upp starfsmenntabrautir. Á því hefur verið heldur mikill skortur, líklega vegna metnaðarleysis, og það er ástæða til að hafa áhyggjur af því. Skólarnir endurspegla því ekki það atvinnulíf sem er til staðar í dag. Það eru hins vegar að verða breytingar. Það má benda á nýauglýsta flugliðabraut á vegum Fjölbrautaskóla Suðurnesja innan ferðaþjónustunnar. Mjór er mikils vísir, en betur má ef duga skal.