131. löggjafarþing — 13. fundur,  20. okt. 2004.

Kaup Landssímans í Skjá einum.

[15:43]

fjármálaráðherra (Geir H. Haarde) (S):

Herra forseti. Áburður hv. þm. Össurar Skarphéðinssonar í garð Sjálfstæðisflokksins er að sjálfsögðu ekki svaraverður. En það er athyglisvert að hann kallar það ofbeldisfulla viðleitni að beita sér fyrir lagasetningu á Alþingi eins og gert var síðasta vor. Ofbeldisfull viðleitni að þingmenn taki sig saman og samþykki lagafrumvarp.

Herra forseti. Það virðist algerlega hafa farið fram hjá málshefjanda, hv. þm. Össuri Skarphéðinssyni, og reyndar fleirum sem hafa tjáð sig um málið að Síminn er ekki lengur hefðbundin ríkisstofnun eins og hún var. Landssíminn er núna hlutafélag í eigu ríkisins og fleiri aðila, eins og fram hefur komið í fréttum undanfarna daga, og starfar á virkum samkeppnismarkaði. Félagið telst ekki opinber aðili heldur er það aðili að einkarétti. Við stofnun hlutafélagsins rofnuðu stjórnsýslutengsl fyrirtækisins við ráðuneyti. Fyrirtækið lýtur því ekki skipunarvaldi neins ráðuneytis um innri málefni þess, heldur er sérstök stjórn sem eigendur kjósa sem ber ábyrgð á störfum sínum gagnvart hluthöfunum og hefur það verkefni að gæta hagsmuna félagsins og hluthafanna. Það hefur ekkert komið fram sem bendir til þess að stjórnendur félagsins hafi ekki axlað þá ábyrgð.

Stjórn Landssímans hefur einnig víðtækar skyldur og ábyrgð samkvæmt hlutafélagalögum sem er unnt að virkja hafi fyrirtækið ekki farið að lögum eða misfarið að einhverju leyti með vald sitt.

Símanum er ekki heimilt að veita mér upplýsingar umfram aðra hluthafa, upplýsingar sem markaðurinn hefur ekki aðgang að. Ég leita því ekki eftir slíkum upplýsingum hjá félaginu. Fyrirtækið er skráð fyrirtæki á markaði og það hlýtur að lúta reglum markaðarins. Þess vegna hef ég ekki upplýsingar umfram það sem fram hefur komið í fjölmiðlum um hvað Landssíminn greiddi fyrir hlutinn í Skjá einum eða skuldamál hans við Landsbankann. Stjórnendur Símans hafa það hlutverk að vinna að hag fyrirtækisins, m.a. að sinna kröfum viðskiptavina sinna og verja þær miklu eignir sem fyrirtækið á í fjarskiptakerfum um allt land. Það hefur komið fram hjá forsvarsmönnum Símans að í þeim tilgangi hafi Síminn umfangsmikil áform um að nýta fjarskiptakerfi sitt til sjónvarpsdreifingar. Síminn vill bæði nota hefðbundnar símalínur með svokallaðri DSL-tækni og eins ljósleiðarakerfi sitt, hið svokallaða breiðband.

Í byrjun árs freistaði Síminn þess að ná náinni samvinnu um þessi áform við helstu eigendur sjónvarpsefnis í landinu. Lengst voru viðræðurnar komnar við Norðurljós þegar forsvarsmenn þess fyrirtækis slitu viðræðum við Símann og ákváðu að fara aðrar leiðir eins og þeim var að sjálfsögðu fullkomlega heimilt og uppfæra sitt eigið lokaða kerfi. Þá setti Síminn aukinn kraft í að ræða við aðra handhafa efnis og í framhaldinu keypti Síminn eins og kunnugt er fjórðungshlut í Íslenska sjónvarpsfélaginu og síðan hafa Síminn og tengdir aðilar keypt viðbótarhluti þannig að nú ráða þeir yfir rúmlega helmingi félagsins sem rekur Skjá einn.

Síminn hyggst á næstunni, eins og fram hefur komið, semja við aðra hluthafa um framtíðarskipulag félagsins og hins gagnvirka sjónvarps sem boðið verður upp á um kerfi Símans. Og það fer ekkert milli mála að þróunin er alls staðar hin sama að það er sífellt nánari samvinna sem fer fram milli fjarskiptarekstrar og sjónvarpsrekstrar um allan heim. Nægir að benda á skyld fyrirtæki í nálægum löndum því til sannindamerkis og einnig þá staðreynd að Norðurljós hafa ásamt tengdum aðilum skuldbundið sig til þess að ráðast í 10 milljarða kr. kaup á Og fjarskiptum hf. sem reka vörumerkið Og Vodafone. Um þessi tæknilegu málefni ætla ég ekki að fjölyrða frekar enda hygg ég að þingmenn séu þeim vel kunnugir.

Mér finnst athyglisvert, herra forseti, það sem hv. þingmaður sagði um sölu Símans. Ég tel að stjórnendur Símans séu, með þeim ráðstöfunum sem þeir hafa gert, að styrkja hag fyrirtækisins, gera það að betri söluvöru og auka verðmæti þess. En mér heyrist að Samfylkingin í allri sinni málefnafátækt sé núna að ganga í lið með Vinstri hreyfingunni – grænu framboði sem reynir með kjafti og klóm og öllum tiltækum ráðum að koma í veg fyrir sölu Símans. Mér þætti vænt um ef það kæmi fram hér hvort svo er eða ekki, hvort það er þannig að Samfylkingin gangi erinda Vinstri grænna hvað varðar sölu Símans. Þá leggst nú lítið fyrir kappana í þeim flokki.