131. löggjafarþing — 14. fundur,  21. okt. 2004.

Uppkaup á bújörðum og samþjöppun framleiðsluréttar.

[10:48]

Drífa Hjartardóttir (S):

Herra forseti. Sl. vor voru ný jarðalög samþykkt á Alþingi og með þeim voru sett ný heildarlög um réttindi og skyldur þeirra sem eiga land, stuðlað að skipulegri nýtingu þess og tryggt að land sem er vel fallið til búvöruframleiðslu yrði varðveitt til slíkra nota svo sem kostur er. Með þessu nýja lagaumhverfi var verið að færa löggjöf um jarðir fram til nútímans og samræma þeim meginreglum sem gilda um aðrar fasteignir í íslenskri löggjöf en eins og flestir vita var löggjöfin orðin nokkuð úrelt.

Miklar breytingar hafa orðið í íslenskum landbúnaði. Með auknu frelsi til athafna og frjálsri sölu á fullvirðisrétti hafa búin stækkað, þeim hefur fækkað og rekstur þeirra styrkst. Þróunin hefur verið sú að 1. september á síðasta ári voru kúabændur 931 en 1. september sl. voru þeir 889. Þeim hefur fækkað um 42, eða 0,8 á viku. Þessi þróun er að mínu mati mjög jákvæð vegna þess að með þessu er verið að styrkja þær einingar sem eru að stækka við sig. Að mínu viti er það mjög jákvæð þróun þegar þéttbýlisbúar hafa verið að kaupa jarðir, setjast að í sveitunum og hafa með því auðgað mannlíf og styrkt það. Mest er um vert að um jarðirnar sé vel hugsað og um þær vel gengið.

Jarðir hafa hækkað í verði og margir hafa notað tækifærið, selt jarðir sínar, söðlað um og snúið sér að öðru. Það er aftur umhugsunarvert hvort of mikil samþjöppun á fullvirðisrétti sé ekki eitthvað sem þarf að skoða en það verður tíminn að leiða í ljós.

Það hlýtur líka að vera einstaklingsbundið hvað menn kjósa að gera við eigur sínar og réttindi. Enginn vill setja menn í átthagafjötra — eða er það, hv. fyrirspyrjandi? Það væri gaman að heyra það. Og þegar hann ræðir um réttindi sveitarfélaganna eru þau tryggð í gegnum byggingar- og skipulagslög.