131. löggjafarþing — 14. fundur,  21. okt. 2004.

Uppkaup á bújörðum og samþjöppun framleiðsluréttar.

[10:53]

Steingrímur J. Sigfússon (Vg):

Herra forseti. Hverjir eiga Ísland? var einu sinni spurt og það var fundað um þetta mál fyrir 20 árum vítt og breitt um landið. Þá þótti ýmsum nóg um hvernig fjármunir og völd söfnuðust á fárra hendur. Nú jaðrar við að það megi fara að spyrja í eintölu. Fiskurinn í sjónum, þræðirnir í fjármála- og stórfyrirtækjaheiminum liggja í örfárra manna hendur og nú er röðin komin að landinu, að jörðinni undir fótum okkar með því að hafin eru stórfelld uppkaup bújarða, ekki bara eyðijarða eða jarða sem eru að fara úr ábúð á jaðarsvæðum, nei, góðra bújarða í miðjum sveitum í fullum rekstri. Um er að ræða hreina spekúlatífa fjárfestingu þar sem menn eru að veðja á það að jarðnæði fari hækkandi í verði á komandi áratugum. Bændur, þ.e. þeir sem ekki bregða búi við þessar breytingar, verða leiguliðar og við förum 200–300 ár aftur í tímann, hæstv. landbúnaðarráðherra. Það er nefnilega rétt hjá teiknaranum Sigmund að undir þínu forustuleysi eru þeir hlutir að gerast að bændur verða í stórum stíl ánauðugir leiguliðar á jörðum sínum. (Landbrh.: Það man nú enginn ...) Ríkisstjórnin flýtur nefnilega verra en sofandi að feigðarósi. Breytingarnar sem hér voru gerðar á jarða- og ábúðarlögum veiktu stöðu ábúenda og sveitarfélaganna í staðinn fyrir að styrkja hana. Möguleikar samfélagsins til að verja sig minnka, möguleikar til að tryggja búsetuna og til að tryggja landbúnaðinum aðgang að landinu en sá var auðvitað tilgangur jarða- og ábúðarlaga á sínum tíma. Þannig er líka fyrirkomulagið í löndunum í kringum okkur, t.d. í Danmörku þar sem gengið er svo langt að ábúðarskylda fylgir eign á bújörðum.

Það verður að stöðva þessa óheillaþróun með tiltækum lagalegum og praktískum ráðstöfunum og með því að nota stuðningskerfið við landbúnaðarframleiðsluna og búsetu í sveitum þannig að það styðji við búsetu, raunverulega heils árs búsetu á jörðunum í formi búsetutengds grunnstuðnings. Hæstv. landbúnaðarráðherra og ríkisstjórnin verða að fara að vakna af dvala sínum og drattast út úr híðinu.

(Forseti (BÁ): Að gefnu tilefni vill forseti minna hv. þingmenn á að beina máli sínu til forseta en ekki til einstakra hæstv. ráðherra eða hv. þingmanna.)