131. löggjafarþing — 14. fundur,  21. okt. 2004.

Uppkaup á bújörðum og samþjöppun framleiðsluréttar.

[11:02]

Magnús Þór Hafsteinsson (Fl):

Hæstv. forseti. Mér finnst stjórnarliðar forðast það eins og heitan eldinn að ræða kjarna málsins, ræða kjarna þeirrar umræðu sem við höfum stofnað til í dag. Hún snýst að sjálfsögðu um það að auðmenn eða hópar auðmanna virðast vera að kaupa upp jarðir með þeim nýtingarrétti og framleiðslurétti sem fylgir og koma á fót einhvers konar leiguliðakerfi. Það er sú framtíðarsýn sem margir hafa áhyggjur af og það er sú framtíðarsýn sem við höfum verið að ræða í dag.

Mér þykir margt benda til að þessir menn hafi uppgötvað að það að hafa vald yfir nýtingarrétti á náttúruauðlindum landsmanna, að hafa vald yfir framleiðslurétti á grundvallarnauðþurftum eins og t.d. matvælum, verði mjög dýrmætt í framtíðinni. Við höfum séð það gerast í sjávarútvegi, þ.e. með kvótum sem þessi ríkisstjórn hefur stutt með ráðum og dáð á undanförnum áratugum, kvótastýrðri framleiðslu á matvælum, þ.e. fiskafurðum. Núna höfum við fengið kvótastýrða framleiðslu á öðrum matvælum, þ.e. mjólk og sennilega mun það sama verða með kjötvörur í framtíðinni ef fram fer sem horfir. Þetta hafa þessir menn séð og þeir sjá í hendi sér að ef rétt verður á málum haldið, ef þeir spila og makka rétt við þá ríkisstjórn sem nú er við völd muni það skila þeim gríðarlegum auðæfum í framtíðinni. Þetta gæti jafnvel leitt til þess að eftir 10–15 ár muni til að mynda Baugsveldið hafa á sinn hendi 75% af framleiðslurétti jarða í landinu til að framleiða mjólkurafurðir. Hvað gera bændur þá, hæstv. landbúnaðarráðherra?