131. löggjafarþing — 14. fundur,  21. okt. 2004.

Uppkaup á bújörðum og samþjöppun framleiðsluréttar.

[11:08]

Jón Bjarnason (Vg):

Herra forseti. Ég þakka þessa umræðu þó að ég verði að lýsa miklum vonbrigðum með ræðu hæstv. ráðherra því þegar hann hafði lokið því að hlæja að sjálfum sér í ræðustól sagði hann að lokum: Það verður ekkert gert til að hafa áhrif á eða breyta þeirri þróun sem í gangi er.

Ég held að íslenskir bændur hafi ekki hlegið að ræðu ráðherra. Ég held að íslenskum bændum sé ekki hlátur í hug að heyra þá skoðanabræður koma hér upp, Pétur H. Blöndal og Guðna Ágústsson, hæstv. ráðherra í landbúnaðarmálum. Ég held að það veki þeim ekki hlátur.

Ég dró í upphafi upp alvarlega mynd af því sem er að gerast, að jarðir eru að færast í uppkaupum á fárra manna hendur. Þar er ekki um að ræða að einstaklingar séu að kaupa sér jörð undir sumarbústað eða til þess að flytja heimili sitt á fyrr eða síðar meir. Nei, hér er um skipulögð uppkaup á jörðum að ræða, jörðum í framleiðslu, skipuleg uppkaup á framleiðslurétti.

Það hefur verið forsenda í skipulagi landbúnaðar allt fram til þessa að jarðir séu setnar af þeim sem eiga þær og nýta þær svipað og hv. þm. Dagný Jónsdóttir benti á úr dönsku lögunum. Ég verð því að lýsa þungum áhyggjum af þeirri þróun sem nú er komin svo hratt í gang, mjólkurlítrinn er kominn í 300 kr., áskriftin að beingreiðslunum sem verið er að kaupa til þess að fjármagna jarðakaup stóreignamanna. Hæstv. ráðherra landbúnaðarmála kemur hér í ræðustól, hlær að sjálfum sér og segir: Ég skal ekkert gera. Og sálufélagi hans, Pétur H. Blöndal, fagnar því að landbúnaðarlöggjöfin skuli fyrst og fremst snúa að þeim sem eru að flytja burtu en ekki að þeim sem vilja búa áfram á jörðum sínum.