131. löggjafarþing — 14. fundur,  21. okt. 2004.

Uppkaup á bújörðum og samþjöppun framleiðsluréttar.

[11:10]

landbúnaðarráðherra (Guðni Ágústsson) (F):

Hæstv. forseti. Ég fullyrði úr þessum ræðustóli að ef einhver kemur og biður um skriflegt svar við fyrirspurn um þá 900 kúabændur sem eru starfandi í landinu að 95% þeirra eru sjálfseignarbændur, eiga jarðir sínar og stunda sinn búskap. Svo geta menn haft áhyggjur af einhverri nýrri þróun.

Menn hafa fordæmt gömlu lögin eða lofað gömlu lögin. Ég ætla að nefna einhver dæmi. Sveitarfélag stöðvaði svissneskan auðmann sem vildi kaupa bújörð á Íslandi í vor og nýtti forkaupsréttinn. Hvað gerði sveitarfélagið svo? Það auglýsti jörðina, valdi sér kjölfestufjárfesti, samdi við þá auðmenn sem hér er verið að tala um undir rós um að þeir keyptu jörðina, fengju hana í sínar hendur og byggðu svo stórt fjós á henni. Það munu þeir gera næsta sumar.

Vissulega er ákveðin þróun í kringum þetta. En þeir menn sem hér er talað um undir rós eru kannski ekki að leita sér að bújörðum sem slíkum þó að þeir hafi áhuga á búskap og reki sauðfjárbú og kúabú. Þeir eru jafnframt í jaðarbyggðum að mér sýnist, af því að ég hef kynnt mér þau mál, að kaupa sér jarðir með virkjanakosti og aðra möguleika í íslenskri náttúru. Það er því sjálfsagður hlutur að fara yfir þetta allt.

Jarðirnar eru verðmætar í dag. Þær voru verðlausar víða um land en eru verðmætar í dag. Þær eru lykileign sem sóst er eftir. Það er það góða.

Ég er þakklátur fyrir þessa umræðu. Þessir hv. þingmenn skömmuðu mig með sama hætti fyrir fimm árum. Þeir gera það enn. Ég veit að það er gott að búa við nöldrið sitt, það heldur manni við efnið. Ég mun halda áfram að reyna að þróa íslenskan landbúnað þannig að fólki líði vel í sveitum, þar séu ný og góð tækifæri og hinar hefðbundnu búgreinar blómstri og þróist eins og þær gera í dag.