131. löggjafarþing — 14. fundur,  21. okt. 2004.

Byggðaáætlun fyrir árin 2002--2005.

216. mál
[11:36]

Kristján L. Möller (Sf) (andsvar):

Herra forseti. Það er ósköp eðlilegt að hæstv. iðnaðarráðherra hafi ekki svör á reiðum höndum um þetta sem ég spurði um. Mér finnst það dálítið sláandi að ráðuneyti sjálfstæðismanna skuli ekki skila gögnum hingað inn um þetta eins og hæstv. ráðherra fjallar um. Þau gögn hafa ekki borist. Þess ber þó að geta að fyrst þegar skýrslan var gerð í vor skilaði eitt ráðuneyti Framsóknarflokksins, utanríkisráðuneytið, ekki inn gögnum. Það er dálítið sérstakt, eins og ég gerði hér að umtalsefni, að ráðuneyti Sjálfstæðisflokksins skilar engu hingað inn. Því spyr ég ráðherrann enn frekar út í þetta: Getur verið að einhver ágreiningur sé milli ríkisstjórnarflokkanna í þessum málum? Ég mun líka koma að því í ræðu minni á eftir að frá þeirri skýrslu sem var lögð fram í vor og til þeirrar sem lögð er fram nú er töluvert mikill munur í mörgum köflum þar sem meginmarkmið og framkvæmd er ekki útskýrt. Það á svolítið við um málaflokka sem falla undir ráðherra Sjálfstæðisflokksins.