131. löggjafarþing — 14. fundur,  21. okt. 2004.

Byggðaáætlun fyrir árin 2002--2005.

216. mál
[11:41]

Guðjón A. Kristjánsson (Fl) (andsvar):

Hæstv. forseti. Mig langar að beina þeirri spurningu til hæstv. ráðherra, þar sem hún fjallaði í upphafi máls síns um störf Byggðastofnunar, árangur af þeim og mat á því hvernig þar hefði til tekist — ég held að hæstv. ráðherra hafi sagt eitthvað á þá leið að afskriftir á árunum 1998–2000 hefðu verið mjög miklar, 600 millj. eða meira, og þar hefði greinilega verið tekin mikil áhætta, á þeim árum. Metur hæstv. ráðherra það svo að stjórnin sem þá sat í Byggðastofnun hafi tekið áhættu langt út fyrir það sem eðlilegt getur talist? Eða hvað á hæstv. ráðherrann við?

Þegar núna verður mikil uppgreiðsla lána sitja þá ekki eftir lán með mikilli áhættu og hvernig ætlar ráðherrann að meta það í framtíðinni?