131. löggjafarþing — 14. fundur,  21. okt. 2004.

Byggðaáætlun fyrir árin 2002--2005.

216. mál
[11:43]

iðnaðarráðherra (Valgerður Sverrisdóttir) (F) (andsvar):

Hæstv. forseti. Jú, það er hægt að segja að það sé þannig núna eftir að það hefur verið þetta mikið um uppgreiðslur lána að þau lán sem eftir eru eru með meiri áhættu en þau sem greidd hafa verið upp. Það er ákveðið áhyggjuefni sem ég kom inn á í ræðu minni.

Ég hef ekkert metið störf stjórnar í samhengi við það hverjir hafa setið þar. Ég fór hér einfaldlega með tölur. Gríðarleg áhætta hefur verið tekin hjá Byggðastofnun í lánamálum og það er alveg skiljanlegt — ég hef fullan skilning á því — og viljinn er sá að reyna að styrkja byggðir á viðkomandi stöðum, og styrkja atvinnulífið. Allt hefur þó sín takmörk og kannski er mönnum ekki greiði gerður endilega með því að fá lán ef starfsemin er vonlaus fyrir fram. Ég tel að með nýjum vinnubrögðum sé lögð meiri áhersla á að meta lánsumsóknir og veita einungis lán þeim fyrirtækjum sem eiga von.