131. löggjafarþing — 14. fundur,  21. okt. 2004.

Byggðaáætlun fyrir árin 2002--2005.

216. mál
[11:44]

Guðjón A. Kristjánsson (Fl) (andsvar):

Ég þakka svörin og vil tjá þá skoðun mína að ég held að það hljóti ævinlega að vera svo að Byggðastofnun taki meiri áhættu í lánum sínum en almennar lánastofnanir. Það er beinlínis hlutverk hennar að standa að því að reyna að efla atvinnu og byggð í landinu. Til þess getur Byggðastofnun eðlilega þurft að taka áhættu og þess vegna ítreka ég það að ég átta mig ekki alveg á því hvað hæstv. ráðherrann átti við þegar hún tók sérstaklega árin 1998–2000 sem ég held að hæstv. ráðherra hafi nefnt í ræðu sinni sem sérstaklega mikið áhættutímabil. Eða getur hæstv. ráðherrann upplýst hversu háar upphæðir um er að ræða sem núna sitja eftir í Byggðastofnun sem áhættulán?