131. löggjafarþing — 14. fundur,  21. okt. 2004.

Byggðaáætlun fyrir árin 2002--2005.

216. mál
[11:50]

Kristján L. Möller (Sf):

Herra forseti. Ég sagði áðan að það væri gott að loksins skyldi komast á dagskrá þingsins að ræða skýrslu iðnaðarráðherra um framvindu byggðaáætlunar fyrir árin 2002–2005. Áðan kom fram hjá hæstv. ráðherra að hún hefði mikið gert til að koma skýrslunni á dagskrá í vor en það hefði ekki tekist. Þá er væntanlega við hæstv. forseta Alþingis að sakast.

Mér fannst í raun og veru dálítið táknrænt að skýrslan skyldi ekki hafa komist fyrr á dagskrá vegna þess að mér finnst oft og tíðum sem menn á hinu háa Alþingi veigri sér mikið við það að eyða tíma sínum í að ræða um byggðamál og byggðaáætlanir. Ég sé ekkert eftir þeim tíma og er stoltur af því að færa þau mál oft í tal þó að ég skaprauni hæstv. ráðherrum eins og í gær þegar þau pirrast yfir því að rædd skuli vera mál sem betur mega fara.

Í upphafi máls míns núna vil ég líka taka undir það sem hæstv. ráðherra sagði í gær, að sannarlega er verið að vinna að mörgum ágætum málum á mörgum stöðum á landinu. Þau gagnast bara ekki öllum. Ég verð að nefna þetta, virðulegi forseti, eins og ég hef nefnt með byggingu álvers fyrir austan sem gagnast vel á Miðausturlandi en ekki t.d. þegar komið er á Vopnafjörð eða suður á Stöðvarfjörð, svo að ég taki dæmi.

Það sem við erum að færa í tal er það sem við sjáum, að skórinn kreppir á öðrum stöðum og ýmislegt má betur fara. Þá kannski snýst það sérstaklega um rekstrarskilyrði fyrirtækja og búsetuskilyrði fólks sem er jafnréttismál.

Ég sagði áðan að ég sæi mikinn mun á þeirri skýrslu sem dreift var í vor og átti að ræða hér og hinni sem dreift er núna. Það er töluvert mikið búið að breyta henni, og kem ég að því síðar, að ég tali nú ekki um fyrstu skýrsluna sem ég fékk í gær. Þá brá mér verulega vegna þess að maður þarf ekki annað en að taka á henni, hún var miklu þynnri en hinar. Ég spurði sjálfan mig: Hvað er nú á ferðinni? Ég margfletti í gegnum skýrsluna í gærkvöldi og skildi ekkert hvað væri á ferðinni þar til ég áttaði mig á því að inni í því gagni, a.m.k. því eintaki sem ég hafði fengið, kom blaðsíða nr. 25 á eftir síðu nr. 8. Það vantaði svona mikið inn í hana. Rétt áður en ég fór að sofa kom það upp í huga mér eitt augnablik hvort það hefði kannski verið táknrænt að svo margar síður vantaði í skýrsluna. Svo þegar ég fór á netið kom í ljós að mistök höfðu átt sér stað við prentun eða heftun eða guð má vita hvað það var, a.m.k. er meira í skýrslunni sem betur fer.

Ég ræddi áðan um ráðuneytin og hæstv. ráðherra gat ekki svarað um framsóknarráðuneytin versus sjálfstæðisráðuneytin, um aðrar aðgerðir stjórnvalda svo það komi skýrt fram, en það er líka sá munur á skýrslunni sem lögð var fram í vor þar til núna að það er búið að taka ýmislegt út úr ýmsum köflum. Það finnst mér mjög athyglisvert og ég vil spyrja hæstv. ráðherra, sem mun þá geta svarað því hér á eftir, hvers vegna það sé. Þetta er um meginhugmyndirnar, merkislýsingin á hverjum kafla fyrir sig og markmiðið, markaðssetning ef svo má að orði komast. Margt af því var tekið út, t.d. kaflinn um athugun á búsetuskilyrðum fólks, meginhugmyndin þar og markmið. Þetta eru falleg orð á blaði og ég get alveg undir þau þó að ég gagnrýni stundum að ekki sé unnið eftir þeim.

Athugun á starfsskilyrðum atvinnuveganna, bæði meginhugmyndir og markmið, er líka farin út og hefur verið sett inn í einn lítinn kafla. Það stendur að iðnaðarráðherra hafi falið Hagfræðistofnun Háskólans og Byggðarannsóknastofnun að skrifa nýja bók, nýja skýrslu. Annað stendur ekki í þessu, því miður. Það er það sem ég sakna, að ekki skuli vera sagt frá því hérna hvað kom fram við athugun á búsetuskilyrðum fólks. Hvar er það sem fólk á landsbyggðinni býr ekki við jafnrétti gagnvart höfuðborgarsvæðinu? Og af hverju er það ekki skilgreint hér og sett upp? Af hverju förum við ekki í þær aðgerðir eins og margoft hefur verið lofað? Af hverju er ekkert sett niður í skýrslu byggðamálaráðherra um starfsskilyrði atvinnuveganna? Þetta vantar. Ég tala nú ekki um ljósleiðarann sem hv. þm. Björgvin G. Sigurðsson ræddi hérna áðan og ætlar að ræða um, ég ætla ekki að eyða lengri tíma í núna. Meginhugmyndin sem stendur í gömlu skýrslunni er, með leyfi forseta:

„Notendur greiði sama verð fyrir gagnaflutninga á landinu öllu.“

Markmiðslýsingin er líka mjög góð en í nýju skýrslunni er hún farin út. Hverju sætir það, hæstv. ráðherra? Ég spyr, virðulegi forseti. (Gripið fram í.) Það er gott, virðulegi forseti, ef hæstv. byggðamálaráðherra hefur skipt um skoðun frá því að ætla að skila auðum síðum upp á einar 14–15 blaðsíður en ég ætla ekki að eyða meiri tíma í það.

Virðulegi forseti. Þessi skýrsla sem hér er rædd — ég sagði að það væri gert vonum seinna og væri betur að það væri gert oftar — gefur ekki tilefni á 15 mínútum til að fara í gegnum þetta allt saman lið fyrir lið. Þó væri sannarlega full ástæða til að gera það. Ég ætla að fara yfir nokkur atriði sem snúa að því að skekkja samkeppnisstöðu fólks á landsbyggðinni gagnvart höfuðborgarsvæðinu, ef svo má að orði komast. Ég ætla að nefna verri lífskjör, mismun sem jafnaðarmenn geta ekki sætt sig við. Ég held að í eðli sínu séum við, flestir Íslendingar, dálítið miklir jafnaðarmenn. Það er ekki hægt að sætta sig við það sem er að gerast hér. Hið sama á við um rekstrarskilyrði atvinnufyrirtækja. Tökum dæmi sem er að gerast núna og ríkisstjórn segir: Okkur kemur þetta ekki við. Þegar rætt er við hæstv. samgönguráðherra, sem var hér áðan en er því miður farinn, um að sjóflutningar eigi að hætta 1. desember segir hann bara: Okkur kemur þetta ekki við, okkur kemur þetta ekki við. Alveg eins og með kennaraverkfallið. Okkur kemur þetta sannarlega við vegna þess að þetta mun skekkja samkeppnisstöðu atvinnurekstrar á landsbyggðinni gagnvart höfuðborgarsvæðinu. Á ég að nefna eitt dæmi?

Við í sjávarútvegsnefnd heimsóttum t.d. Sæplast á Dalvík og fengum þar sýnt á glæru hvernig það mun fara þegar sjóflutningar hætta og þeir þurfa að fara að flytja allt landleiðina. Þar fyrir utan spái ég því að taxtar á landflutningum muni hækka um leið og sjóflutningarnir hætta og, það sem verra verður, ég spái því líka að flutningafyrirtækin muni lokka frystitogarana suður til sín á höfuðborgarsvæðið einn af öðrum og bjóða þeim fría löndun, kannski frían flutning á mannskap heim o.s.frv. gegn því að koma suður og landa. Þá verður þetta tekið af bæði sem tekjur fyrir hafnirnar og vinna fyrir fólkið þarna. Olíugjaldið sem ríkisstjórnarflokkarnir samþykktu að taka upp á næsta ári mun líka stórhækka flutningskostnað á landinu. Hæstv. ráðherra ræddi ekki um það. Það verður núna með öðrum orðum tekjustofn fyrir ríkissjóð, fyrir flutningabíla sem keyra yfir margar heiðar í ófærð. Í mótvindi t.d. munu þessir bílar eyða miklu meiri olíu og greiða miklu meiri skatt til ríkissjóðs, og er þó nóg fyrir. Ég spái því, virðulegi forseti, því miður, að þetta muni hækka flutningsgjöld.

Hæstv. byggðamálaráðherra ræddi enn einu sinni um og kenndi einhverju apparati úti í Brussel um að ekki séu komnar einhverjar aðgerðir í jöfnun flutningskostnaðar eins og margoft hefur verið lofað og talað um af hæstv. ráðherra á tyllidögum og fyrir kosningar. Þessa sér hvergi stað í fjárlögum. Það er ekki endalaust hægt að kenna Brussel um svona aðgerðaleysi. Við þurfum ekkert samþykki í Brussel fyrir því að lækka skatta af flutningastarfsemi, virðulegi forseti. Það er auðveld leið. Sú leið sem ég m.a. benti á við olíugjaldið var því miður ekki tekin upp, að setja hina sérstöku mæla í flutningabíla, láta þá greiða eftir því og gefa t.d. möguleika á miklum afslætti ef keyrt væri á næturnar. Hæstv. ríkisstjórn hlustaði því miður ekki á það.

Annað atriði sem ég vil nefna á þessum stutta tíma er tekjustofnar sveitarfélaga. Skertar tekjur sveitarfélaga gera það að verkum að sveitarfélögin úti á landi geta skaffað íbúum sínum minni þjónustu en gerist og gengur annars staðar. Íbúar úti á landi vilja sömu þjónustu frá sveitarfélagi sínu og gerist annars staðar, hvort sem það varðar skóla, vegi, félagsþjónustu eða annað. Þetta hefur verið skert mjög í tíð núverandi ríkisstjórnar. Skattkerfisbreytingin 2001 þar sem mönnum gafst tækifæri til að setja rekstur sinn yfir í einkahlutafélög stórskerti tekjur sveitarfélaga og að mati Vilhjálms Vilhjálmssonar, formanns Sambands sveitarfélaga, sem ég kalla stundum höfuðborgarsveitarfélaganna, skertust tekjurnar um milljarð.

Hvaða afleiðingar hefur þetta í för með sér? Jú, það gerir það t.d. að verkum að þau sveitarfélög eru til sem verja allt að 90% til fræðslumála, eins og kom fram í svari félagsmálaráðherra við fyrirspurn minni nú fyrir nokkrum dögum. Það er alveg með ólíkindum hvernig þetta er að fara. Hvaða áhrif hafði þessi skattkerfisbreyting á fyrirtækjarekstur í landinu? Mjög alvarlegar afleiðingar. Fyrirtæki á höfuðborgarsvæðinu stórgræddu á tekjuskattsbreytingunni, á lækkun skattprósentunnar, á lækkun eignarskattsins og upptöku og hækkun tryggingagjaldsins. Ég sagði það í gær að fyrirtæki á þessum tíma og á þáverandi verðlagi í Reykjavík og á Reykjanesi græddu 2,7 milljarða kr. á þessari skattkerfisbreytingu. Fyrirtækin á Norðurlandi vestra, Vestfjörðum og Vesturlandi græddu heilar 6 millj. kr.

Það er þetta sem ég er að tala um, virðulegi forseti.

Í þessari skýrslu er verið að tala um að jafna rekstrarskilyrði atvinnufyrirtækja en það hefur ekki verið gert á neinn hátt heldur farið í þveröfuga átt eins og ég bendi á. Er hæstv. ráðherra byggðamála virkilega stolt af því að sitja í ríkisstjórn sem beitir sér fyrir aðgerðum sem koma svona misjafnlega niður á þegnum og fyrirtækjarekstri í landinu? Ég segi nei. Ég var sammála því að lækka tekjuskattsprósentuna en ekki hvernig það er gert. Af hverju er þá ekki gengið í það sem gerir það að verkum að fyrirtæki á landsbyggðinni víðast hvar skila ekki miklum hagnaði, að lækka flutningskostnaðinn sem er brýnasta hagsmunamál landsbyggðarinnar? Nei, það er ekki gert vegna þess að einhverjum vondum körlum úti í Brussel er kennt um það.

Virðulegi forseti. Eins og ég sagði áðan gefst ekki mikill tími til að fara í gegnum þessa skýrslu á 15 mínútum eftir 30 mínútna inngangserindi hæstv. ráðherra. En ég á aðrar 15 mínútur og mun nota þær á eftir og ræða um aðra þætti sem snúa að þessu.

Ég vil í lokin á þessum ræðutíma segja að það sem ég nefndi um sjóflutningana og landflutningana — af því að hæstv. samgönguráðherra er kominn inn vil ég nefna það að ég var að tala um sjóflutningana og að ég er mjög ósáttur við þau orð samgönguráðherra þegar hann var spurður út í sjóflutninga að ríkisvaldinu komi þeir ekki við. Auðvitað kemur okkur við hvernig þetta er og við eigum að stuðla að því ef hægt er að hafa sjóflutninga áfram. Það má alveg hugsa sér þá leið að styrkja sjóflutninga til ákveðinna staða á landsbyggðinni, þ.e. með flutningsstyrkjum. Evrópusambandið er t.d. mest í því að leyfa slíka „mismunun“ ef svo má að orði komast. Það mætti alveg hugsa sér það til einhverra meginhafna og það væri líka öryggisatriði gagnvart umferð á þjóðvegum. Af því að hæstv. samgönguráðherra er hér og hefur tekið við umferðaröryggismálunum þá er það líka ákveðið öryggisatriði að fá ekki allan þann flutning sem nú fer í sjóflutningum upp á þjóðvegi landsins og skapar stórhættu á þjóðvegunum. Auðvitað eigum við að hugsa upp leiðir og skoða hvort hægt er að koma til móts við þetta, t.d. að bjóða út sjóflutninga eins og gert var með flugið til ákveðinna staða. Mér finnst alveg fullkomlega koma til greina að skoða þá leið.

Virðulegi forseti. Eins og ég sagði áðan um þessa skýrslu þá er margt ágætt sett þar fram. Mér finnst hins vegar vanta töluvert mikið á efndirnar. Ég tek sem dæmi endurgreiðslu námslána, punkt nr. 20, með ágætismeginhugmynd og ágæta markmiðslýsingu í þeirri skýrslu sem dreift var í vor. Í skýrslunni núna er meginhugmyndin og markmiðslýsingin tekin út og í svari hæstv. fjármálaráðherra við fyrirspurn minni um málið kom einfaldlega fram að það hefði ekkert verið gert í því og stæði ekki til að gera neitt.

Ég nefndi áðan háhraðatengingarnar, þá fínu markmiðslýsingu sem var í gamla gagninu um að notendur greiði sama verð fyrir gagnaflutninga á landinu öllu. Meginhugmyndin var sú, markmiðslýsingin var líka góð, ábyrgðin á höndum samgönguráðuneytisins, allt þetta er farið út. Hvers vegna er það farið út? Er það vegna þess að einhverju ráðuneyti finnst óþægilegt að hafa slíka lýsingu? Ég var mjög ánægður með hvernig þetta var sett upp og að einstök ráðuneyti voru gerð ábyrg fyrir framkvæmdinni á þessum hluta byggðaáætlunar. Mér fannst þetta mjög góð markmiðssetning en ég verð mjög hissa, svo ég segi nú ekki meira, ef þetta er að detta út eitt af öðru núna. Ég vil ekki trúa því að ráðuneytin treysti sér ekki til að vinna þessi verkefni, að þau séu að beita sér fyrir því að þetta sé tekið út úr skýrslu hæstv. byggðamálaráðherra sem flutt er hér nú.

Virðulegi forseti. Ég hef gert nokkur atriði úr þessari skýrslu að umtalsefni. Mörg önnur bíða þess að verða tekin út og rædd og eins ég sagði áðan mun ég gera það á eftir. Ég mun m.a. tína til og sýna reikninga fyrir flutningi á einu tonni af sementi vestur á firði þar sem flutningskostnaðurinn er jafnhár og innkaupsverðið á sementinu. Hvernig í ósköpunum á kaupmaðurinn í Bolungarvík að selja þetta sement? Það væri gaman að heyra útlistun á því hjá hæstv. byggðamálaráðherra, sem jafnframt er viðskiptaráðherra, hvernig reka eigi fyrirtæki á landsbyggðinni sem býr við þessi ofurflutningsgjöld og hvernig á að leggja á og hafa smávegis fyrir rekstri miðað við slíka álagningu.