131. löggjafarþing — 14. fundur,  21. okt. 2004.

Byggðaáætlun fyrir árin 2002--2005.

216. mál
[12:12]

Kristján L. Möller (Sf) (andsvar):

Frú forseti. Ég vil ítreka þá spurningu mína sem ég lagði fram hér í stuttu andsvari hvort hv. þm. væri sammála þeirri aðgerð sem gerð var við skattkerfisbreytinguna og kom þannig út fyrir fyrirtækjarekstur í Vestmannaeyjum að það hafði eins og ég sagði í för með sér 30 millj. kr. skattahækkun miðað við sömu rekstrarskilyrði á verðgildi ársins 2001 þegar við ræddum þetta frumvarp, meðan fyrirtækjarekstur í Reykjavík og Reykjanesi græddi 2,7 milljarða á málinu? Það er þetta sem ég er að gagnrýna. Fyrirtækjarekstur á landsbyggðinni naut ekki ávaxtanna af þessari skattkerfisbreytingu vegna þess að þau voru í eðli sínu að borga litla skatta, vegna þess að þau voru m.a. að borga há flutningsgjöld og þau fengu ekki mikla lækkun á eignarsköttunum vegna þess að eignarskattar úti á landi eru ekki mjög háir af því að íbúðaverð og húsnæðisverð fyrirtækja er svo lágt skrifað en þessi fyrirtæki urðu að greiða hærra tryggingagjald. Ég trúi því ekki að hv. þm. sé sammála þessu.

Ég neita því að ég sé sífellt að draga upp svarta mynd af ástandinu á landsbyggðinni. Ég er að færa í tal raunveruleikann. (Samgrh.: Er það?) Heyrist mér nú koma eitthvert baul hér á hægri hönd frá hæstv. samgönguráðherra sem tekur því sennilega illa að það skuli vera rætt um þetta og bíð ég spenntur eftir að heyra í hv. 1. þm. Norðvest. í umræðunni á eftir um byggðamál,.

Það er jákvætt að búa úti á landi, það er sannarlega rétt, það vitum við sem höfum búið þar. Þar er barnvænt og allt það. Það er bara ekki nóg. Fólk þarf atvinnu. Fólk þarf jöfn lífsskilyrði og sættir sig ekki við annað. Fólk á Raufarhöfn sættir sig ekki við að hafa ekki háhraðatengingu eins og fólk hefur á Suðurlandi. Þetta er bara lífsmottó fólks í dag. Og varðandi atvinnuleysi og atvinnuleysisskráningu, eins og hæstv. ráðherra talaði um áðan, þá skulum við horfa á íbúaskrána vegna þess að hún er líka talning á atvinnuleysi af því að fólk neyðist til að flytja í burtu.