131. löggjafarþing — 14. fundur,  21. okt. 2004.

Byggðaáætlun fyrir árin 2002--2005.

216. mál
[12:40]

Guðjón Guðmundsson (S) (andsvar):

Hæstv. forseti. Nú hef ég ekki séð neinar tölur á prenti um það sem hv. þm. er að segja. Þetta eru hans orð og ég ætla ekki ... (KLM: ... nefndarálitinu.) Ef ég mætti aðeins ljúka máli mínu fyrir pirringnum í hv. þingmanni er ég að segja það að ég er ekki með neitt um þetta í höndunum. Ég tel hins vegar að þær skattbreytingar sem þessi ríkisstjórn hefur gengist fyrir fyrir fyrirtækin í landinu hafi styrkt atvinnulífið með þeim hætti að það er aldrei sterkara en eftir þær.

Af því að hann nefnir Vesturland held ég að ég megi fullyrða að atvinnulífið á Vesturlandi er í miklum blóma. Ég minnist þess að þegar ég byrjaði á Alþingi 1991 var bölvað basl í atvinnurekstri vítt og breitt um Vesturland. Það hefur bara gjörbreyst, það er allt annað ástand og það er kannski fyrst og fremst að þakka því að ríkisstjórnin hefur breytt skattumhverfi fyrirtækjanna, lækkað tekjuskattinn, fellt niður aðstöðugjaldið og fleira í þeim dúr. Eignarskatturinn er á förum. Allt þetta styrkir atvinnulífið í landinu og við verðum að líta á það jákvætt, hv. þingmaður.