131. löggjafarþing — 14. fundur,  21. okt. 2004.

Áfengisauglýsingar.

[13:43]

Ögmundur Jónasson (Vg):

Hæstv. forseti. Ég vil byrja á því að þakka hv. málshefjanda, Merði Árnasyni, fyrir að taka þetta mál upp. Ég hélt að umræðan ætti að snúast fyrst og fremst um áfengisauglýsingar og bann við þeim en ekki skattlagningu á brennivíni í Evrópusambandinu og á Norðurlöndum sem er umræða sem er góðra gjalda verð.

Sem kunnugt er eru áfengisauglýsingar bannaðar samkvæmt íslenskum lögum. Þetta er nokkuð sem áfengissölum er ekki að skapi og þá hafa þeir um tvo kosti að velja, annaðhvort að vinna að því að fá lögunum breytt eða brjóta þau, í besta falli að finna leiðir til að fara á bak við þau.

Áfengissalar hafa valið síðari kostinn. Þeir brjóta lögin. Í seinni tíð hafa þeir verið að færa sig upp á skaftið og hefur keyrt um þverbak í sumar. Þess vegna er vel til fundið af hv. málshefjanda að taka þetta mál í upphafi þings til umræðu utan dagskrár til að ganga eftir því hvernig stjórnvöld hyggist bregðast við þessari ósvífnu og yfirveguðu aðferð til að brjóta íslensk lög. Þar sem sölumennirnir hafa ekki haft þrek og siðferðilega burði til að hlíta landslögum, sem er dapurlegt hlutskipti í sjálfu sér, og hafa ekki viljað fara hinar lýðræðislegu leiðir er ekki um annað að ræða en að gera annað tveggja, að sjá til þess að landslögum sé fylgt — það er ekki gert. Hæstv. ráðherra segist treysta því að landslögum verði fylgt. Þeim er ekki fylgt. Það er verið að spyrja hvað stjórnvöld hyggist gera í því efni — eða reyna að stoppa upp í öll þau göt sem kunna að opna leiðir fyrir áfengissalana til þess að fara (Forseti hringir.) á bak við landslög. Þingflokkur Vinstri hreyfingarinnar – græns framboðs (Forseti hringir.) mun fljótlega tala fyrir þingmáli með tillögu í þessu efni.