131. löggjafarþing — 14. fundur,  21. okt. 2004.

Áfengisauglýsingar.

[13:47]

Gunnar Örlygsson (Fl):

Hæstv. forseti. Ég vil hefja mál mitt með því að þakka hv. málshefjanda, Merði Árnasyni, fyrir að taka þetta mál hér til umræðu.

Á nýrri fjarskiptaöld tel ég með öllu ómögulegt að banna áfengisauglýsingar og tel ég því brýnt að lögin verði endurskoðuð. Flest heimili á landinu búa yfir gervihnattasambandi og geta því tekið á móti fjölmörgum sjónvarpsstöðvum gegn vægri greiðslu. Eins og flest okkar vita eru áfengisauglýsingar ekki bannaðar á flestum, ef ekki öllum, erlendu sjónvarpsstöðvunum. Fyrir þessar sakir liggur í augum uppi að það missir marks að hafa í gildi lög sem banna áfengisauglýsingar á Íslandi. Þar fyrir utan má bæta við umræðuna þeim samkeppnisbresti sem innlendir framleiðendur á áfengum drykkjum búa við. Innflytjendur áfengra drykkja hafa vissulega forskot á innlenda framleiðendur í þessum skilningi. Ég hefði frekar talið að styrkja ætti innlendan iðnað en að mæla með lögum sem gera honum erfitt fyrir.

Sú afstaða að banna með öllu áfengisauglýsingar er skiljanleg. Án efa býr þar góður hugur að baki. Persónulega trúi ég ekki mikið á boð og bönn nema að litlu leyti þegar kemur að forvörnum af ýmsu tagi. Ég hef ávallt talið vænlegra að feta leið kynningar og öflugs skipulags með heildarstefnumótun löggjafans á fyrirbæri sem kallast heilbrigði, hreyfing og hollir lifnaðarhættir. Í þessu skyni vann ég ásamt fleiri þingmönnum að þingsályktunartillögu um íþróttaáætlun en hún var lögð fyrir Alþingi í síðustu viku.

Því miður er það svo, hæstv. forseti, að á meðan hv. leikmenn löggjafans rífast um hvort leyfa eigi áfengisauglýsingar er svo til aldrei á Alþingi talað um heilbrigði, holla lífshætti eða mataræði. Að mínu viti yrði stórt skref stigið í forvarnabaráttunni með innleiðingu íþrótta- og heilsuáætlunar til starfa löggjafans.