131. löggjafarþing — 14. fundur,  21. okt. 2004.

Áfengisauglýsingar.

[13:58]

Magnús Þór Hafsteinsson (Fl):

Virðulegur forseti. Ég leyfði mér þann munað að taka með mér upp í ræðustól hins háa Alþingis lagasafnið okkar frá árinu 2003 sem við þingmenn sem sitjum hér á löggjafarþingi þjóðarinnar eigum öll að eiga eintak af. Ég fletti upp á áfengislögum, nr. 75/1998, og þau eru í sjálfu sér afskaplega skýr. Í 20. gr. þeirra segir, með leyfi forseta:

„Hvers konar auglýsingar á áfengi og einstökum áfengistegundum eru bannaðar. Enn fremur er bannað að sýna neyslu eða hvers konar aðra meðferð áfengis í auglýsingum eða upplýsingum um annars konar vöru eða þjónustu.“

Síðan fylgja með ýmsar undanþágur á þessum auglýsingum og annað þess háttar sem ég ætla ekki að rekja hér.

Ég tel alveg óþolandi að við sem sitjum á löggjafarþingi þjóðarinnar, förum með löggjafarvaldið, lítum það eitthvað jákvæðum augum að menn einhvers staðar úti í bæ brjóti landslög markvisst og skipulega, lög sem jafnvel eru ekki eldri en þetta, frá 1998. Þetta hljótum við að fordæma, sama hvar í flokki við stöndum og sama hvaða skoðun við annars höfum á þessum lögum. Við hljótum að fordæma það því þetta dregur úr trúverðugleika okkar sem sitjum hér á löggjafarþinginu. Þetta grefur undan trúverðugleika löggjafans sjálfs.

Það má vel vera að tími sé kominn til að endurskoða þessi lög. Ég hef í sjálfu sér ýmsar efasemdir um það. Ég hef hlustað á ræður hér í dag af miklum áhuga og ég er alveg reiðubúinn að fara í þá vinnu að skoða lögin, líta á þau á ný og athuga hvort einhver ástæða sé til að breyta. Ég efast reyndar um það, ég hef á vissan hátt ekki mikið álit á miklum boðum og bönnum í þjóðfélaginu og tel það forvarnastarf sem félagi minn, hv. þm. Gunnar Örlygsson, benti á áðan kannski vænlegra til árangurs. Það að menn brjóti lög er hins vegar óþolandi.