131. löggjafarþing — 14. fundur,  21. okt. 2004.

Byggðaáætlun fyrir árin 2002--2005.

216. mál
[15:18]

Birkir Jón Jónsson (F) (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég hélt ég þyrfti ekki að svara þeirri fyrirspurn sem fylgir í töfluyfirliti yfir búferlaflutninga úr sveitarfélögum eftir ársfjórðungum árið 2004, sem er öllum aðgengilegt. Ég hélt ég þyrfti ekki að lesa upp úr þeirri töflu úr ræðustól Alþingis. (MÞH: Lestu upp úr henni fyrir okkur.)

Hins vegar er mjög áhugavert að velta fyrir sér þeirri stefnu sem Frjálslyndi flokkurinn vill. (MÞH: Ætlar þingmaðurinn að svara spurningunum eða ekki?)

(Forseti (JóhS): Vilja hv. þm. gjöra svo vel að gefa ræðumanni frið til þess að svara andsvarinu.)

Ég þakka hæstv. forseta fyrir. Það er greinilegt að hv. þingmenn Frjálslynda flokksins eru mjög viðkvæmir gagnvart þeirri atvinnustefnu sem þeir hafa boðað, enda sagði ég það í ræðu minni áðan að við ætluðum að reka hér öflugan sjávarútveg og við ætluðum að verja arðinum af því veiðigjaldi sem verður tekið af íslenskum sjávarútvegi til uppbyggingar í bæjarfélögum eins og Siglufirði, Ólafsfirði eða Dalvíkurbyggð. Hv. þingmenn Frjálslynda flokksins og annarra vilja flytja kvótann eitthvert annað, til einhverra annarra.