131. löggjafarþing — 14. fundur,  21. okt. 2004.

Byggðaáætlun fyrir árin 2002--2005.

216. mál
[15:19]

Magnús Þór Hafsteinsson (Fl) (andsvar):

Virðulegi forseti. Það er alveg með ólíkindum að hlusta á nýskipaðan varaformann sjávarútvegsnefndar Alþingis standa hér í ræðustól og flytja mál sitt. Ég vil aðeins benda á nokkrar staðreyndir í skýrsluformi sem ég tók með mér af skrifstofu minni þegar ég hlustaði á hann í sjónvarpinu áðan.

Hér er skýrsla Byggðastofnunar frá október 2001, Áhrif kvótasetningar á aukategundir hjá krókabátum á byggð á Vestfjörðum. Þar kemur fram að miðað við samdrátt í afla til vinnslu upp á 6.200 tonn af slægðum afla — vegna þess að Framsóknarflokkurinn og Sjálfstæðisflokkurinn kvótasettu trillurnar í ýsu, ufsa og steinbíti — er gert ráð fyrir að ársverkum í landvinnslu á Vestfjörðum fækki um 93, miðað við upplýsingar frá Samtökum fiskvinnslustöðva. Gert er ráð fyrir að störfum við smábátaútgerð fækki um 160–200. Þetta hefur allt gengið eftir.

Um daginn var sjávarútvegsnefnd Alþingis á ferð — það var reyndar áður en hv. þm. varð varaformaður, áður en hann vann það níðingsverk með félögum sínum að reka rýting í bak Kristins H. Gunnarssonar og (Gripið fram í.) úthýsa honum úr sjávarútvegsnefnd — og hitti trillukarla við Eyjafjörð, Svæðisfélagið Klett. Og hvað sögðu þeir um niðurlagningu dagakerfisins sem framsóknarmenn og sjálfstæðismenn stóðu fyrir? Þeir sögðu orðrétt, með leyfi forseta:

„Hið breytta umhverfi sem blasir við mönnum á nýju fiskveiðiári með niðurfellingu dagakerfisins er langt frá því að vera bjart. Borðleggjandi er að störfum við fiskveiðar mun fækka til muna þar sem útgerð færabáta mun dragast verulega saman á okkar svæði, t.d. sjáum við fram á samdrátt sem nemur 20–30 bátum, eða allt að 50 störf bara í veiðum. Einnig er það okkur mikið áhyggjuefni hversu erfitt er fyrir nýja aðila að komast inn í kerfið eins og það er orðið með kvóta á alla báta og tegundir.“

Frú forseti. Við í Frjálslynda flokknum höfum barist gegn þessari þróun með kjafti og klóm. Við höfum gert það af ábyrgð og við höfum gert það af heilindum. Það er alveg ótrúlegt að þurfa að heyra þennan fúkyrðaflaum og þessar rangfærslur úr munni nýskipaðs varaformanns sjávarútvegsnefndar. Þetta boðar ekki gott.