131. löggjafarþing — 14. fundur,  21. okt. 2004.

Byggðaáætlun fyrir árin 2002--2005.

216. mál
[15:52]

Jón Bjarnason (Vg):

Frú forseti. Við ræðum skýrslu hæstv. iðnaðarráðherra um framvindu byggðaáætlunar fyrir árin 2002–2005.

Ég vil í upphafi máls míns láta í ljós mat mitt á viðfangsefnum sem þessum. Byggðaáætlun og byggðaaðgerðir eiga að stærstum hluta að vera hluti af hinum almennu verkefnum sem sýslað er með af hálfu stjórnsýslunnar gagnvart landinu öllu. Sértækar aðgerðir, smáar og stórar, í byggðamálum geta verið réttlætanlegar í neyðartilfellum, en þær munu ekki gagnast sem algild stefna gagnvart þjónustu eða uppbyggingu atvinnulífs um landið. Því fleiri sértækar aðgerðir sem grípa þarf til, því erfiðara verður að koma á föstum grunni fyrir samkeppnishæft atvinnulíf og búsetu í landinu. Ef stöðugt þarf að grípa til margra afmarkaðra og sértækra aðgerða segir það okkur bara eitt, að eitthvað sé í ólagi með grunninn, grunn atvinnulífsins og búsetunnar í landinu. Sérstakar byggðaaðgerðir eiga fyrst og fremst rétt á sér við afmörkuð tilvik, sérstakt og afmarkað átaksverkefni eða til að mæta einhverjum áföllum. Ég mun því í ræðu minni fjalla meira um hina almennu grunnþætti sem hafa áhrif á samkeppnishæfni atvinnulífs og búsetu í landinu og ég tel að eigi að standa vörð um og efla.

Það skiptir máli hvernig velferðarþjónustan er byggð upp. Það skiptir máli að allir, hvar sem þeir eru í landinu, hafi jafnan rétt til þess að sækja heilsugæslu og sjúkrahúsþjónustu. Það skiptir máli að allir hafi jafnan rétt til þess að sækja menntun. Það skiptir máli að hægt sé að búa sem lengst í eðlilegu fjölskyldulífi í heimabyggð, t.d. hvað menntun barna og unglinga varðar. Þetta eru grunnatriði sem skipta byggð og búsetu miklu máli. Stefna núverandi ríkisstjórnar sem lýtur að því að skerða og takmarka velferðarkerfið mun því bitna harðast á fólki sem býr í hinum dreifðu byggðum landsins. Þess vegna er mikilvægt að standa vörð um velferðarþjónustuna svo jöfnuður ríki meðal landsmanna. Sértækar aðgerðir hvað þetta varðar munu lítt stoða til þess að styrkja samkeppnishæfnina.

Hér hefur verið rætt um samgöngumál. Góðar samgöngur á milli landshluta, innan landshluta og innan svæða skipta höfuðmáli fyrir samkeppnishæfni byggðar og atvinnulífs á viðkomandi svæðum. Þetta virðist seint nóg áréttað. Úti um sveitir landsins þarf fólk í æ ríkari mæli að sækja atvinnu fjarri heimilum sínum og bújörðum í næsta þéttbýlisstað eða annað. Börnum er ekið í skóla lengri og lengri vegalengdir vegna breytinga í samfélaginu. Til þess að það gangi upp með eðlilegum hætti þurfa samgöngur að vera góðar. Eitt brýnasta málið úti um sveitir landsins er að efla og styrkja vegakerfið innan héraða, safnvegina og tengivegina, í sveitunum þar sem fólkið sem við fjöllum um býr. Það þarf að styrkja samkeppnishæfni í búsetunni, það þarf að nýta sér þá vegi og aka á þeim og hafa möguleika til þess. Einnig að aðalvegir innan landshluta og milli landshluta séu byggðir upp.

Vissulega hefur í auknum mæli verið unnið að bótum í þeim málum á síðustu árum, enda ætti aukið fjármagn að vera til þess með vaxandi þjóðartekjum. Engu að síður horfum við upp á að vegáætlun sem lögð er fram af miklum metnaði, samþykkt samhljóða á Alþingi, um áherslur og verkefni í vegamálum til næstu tíu ára, er eitt það fyrsta sem er skorið niður, á þessu ári um 1.600 til 1.700 millj. kr., á næsta ári um 1.900 millj. kr. og á þarnæsta ári um nærri 2 milljarða. Vegáætlun hafði skapað væntingar og vissulega er þörf á henni. Hún hefði ekki verið samin með þessum hætti nema þörf væri fyrir verkefnin. Því er það mikið áfall að einmitt skuli vera gripið til þess að skera niður til samgöngumála í landinu.

Þarna skipta einhverjar sértækar byggðaaðgerðir hvað samgöngumál varðar engu máli, nema ef einhver annar tekjustofn er settur til þess að taka á einstakri framkvæmd.

Ég vil einnig nefna flutningskostnaðinn. Á undanförnum þingum höfum við rætt mikið um flutningskostnað. Hæstv. samgönguráðherra beitti sér fyrir sérstakri úttekt á flutningskostnaði í landinu fyrir tveimur árum. Í þeirri úttekt kom í ljós að flutningskostnaður á milli landshluta hafði vaxið gríðarlega, langt umfram verðlagsþróun í landinu. Þrátt fyrir að menn teldu að þeir væru að ná fram hagræðingu þá virtist sú hagræðing ekki skila sér í lækkun á flutningskostnaði á milli landshluta.

Hæstv. iðnaðarráðherra tók að sér að vinna tillögur um hvernig mætti ná fram sérstökum flutningsjöfnuði og bæta þar nokkuð úr. Það eina sem hæstv. iðnaðarráðherra hefur beitt sér fyrir í þeim efnum og er sjáanlegt er að fella niður þá flutningsstyrki sem voru, fella niður flutningsstyrkinn á sementi sem leiddi til að það stórhækkaði í verði víða um land. Þetta er eina sýnilega aðgerðin sem hæstv. ráðherra hefur beitt sér fyrir. Um hitt, hvernig eigi að koma til móts við aukinn flutningskostnað að öðru leyti og jafna hann, sjást engar tillögur.

Hér hefur verið rætt um fjárhag sveitarfélaganna. Það þýðir lítið að tala um byggðaaðgerðir ef fjárhagsgrunnur sveitarfélaganna er veikur. Tekjustofnar og fjárhagsgrunnur sveitarfélaganna verða að vera með þeim hætti að sveitarfélögin geti veitt þjónustu, verið samkeppnisfær við önnur svæði á landinu um að veita almenna þjónustu: leikskóla, öldrunarþjónustu, grunnskóla o.s.frv. Ef sveitarfélögin eru ekki samkeppnisfær hvað þetta varðar þá skipta sértækar byggðaaðgerðir í afmörkuðum atriðum litlu máli.

Hvað þetta varðar virðist ríkisstjórnin fljóta sofandi að feigðarósi. Við heyrum æpandi þörf fyrir að tekjustofnar sveitarfélaganna verði bættir. Það er kannski eitt stærsta byggðamálið í dag, að styrkja fjárhagsstöðu sveitarfélaganna.

Annað mál tengist samgöngumálunum, þ.e. strandsiglingarnar. Hæstv. iðnaðarráðherra kom ekki inn á þau afrek í byggðamálum sem þar verða en frá 1. desember næstkomandi eru allar líkur á að skipulagðar strandsiglingar við landið leggist af. Hvað þýðir það? Þær hafa verið að skreppa saman á undanförnum árum og flutningarnir verið að færast upp á þjóðvegina. Það þýðir að byggðirnar meðfram ströndum landsins verða ekki jafnsamkeppnishæfar og áður. Þær urðu til og byggðu atvinnu sína á því að vörur kæmu með sem hagkvæmustum hætti, með skipum. Hafnir sem hafa verið byggðar upp missa tekjur og verkefni. Allur kostnaður af þungaflutningum verður mun meiri en annars væri.

Ég tel að ef strandsiglingar leggjast af þá verði það gríðarlegt áfall í byggðamálum á Íslandi. Það er þjóðhagslega óhagkvæmt. Það hefur verið sýnt fram á það í umræðum áður. Við þingmenn Vinstri hreyfingarinnar – græns framboðs höfum flutt um það þingsályktunartillögu að nú þegar verði tekið á málum með strandsiglingar og stefnt að því að koma þeim á aftur, ekki síðar en á næsta ári. Að þessu er ekki vikið í byggðaumræðu hæstv. iðnaðarráðherra. Við í Vinstri hreyfingunni – grænu framboði leggjum áherslu á almenn atriði sem styrkja samkeppnishæfni atvinnulífsins og búsetu vítt og breitt um landið.

Einnig mætti tína til ýmis sértæk atriði, t.d. þátttöku og kostnaðarhlutdeild sveitarfélaganna út um land í einstökum þáttum. Í húsaleigubótum hefur hlutur sveitarfélaganna vaxið gríðarlega en hlutur ríkisins lækkað að sama skapi og er þetta þó samstarfsverkefni. Við eyðingu refa og minka hefur hlutur sveitarfélaganna stórhækkað en hlutur ríkisins lækkað. Þetta er þó samningsbundið samstarfsverkefni.

Þingmenn Vinstri hreyfingarinnar – græns framboðs hafa flutt tillögu á Alþingi um nauðsyn þess að GSM-samband komist á um alla byggð og á aðalþjóðvegum landsins. Samkeppnishæfni búsetunnar er m.a. háð því að nútímafjarskipti séu þar aðgengileg öllum. Það tel ég eitt af mestu byggðamálunum.

Ég verð síðan, frú forseti, að minnast á eina atvinnugrein enn, þ.e. ferðaþjónustuna. Ferðaþjónustan er einn mesti vaxtarsproti í atvinnulífi þjóðarinnar. Hún er nú komin í a.m.k. 2. sæti ef ekki 1. sæti í gjaldeyrisöflun. Hún veitir meiri atvinnu nú úti á landi en nokkur annar atvinnuvegur einn og sér. Þess vegna er það dapurlegt að í fjárlögum næsta árs eru fjárveitingar til ferðamála skornar niður. Fjárveitingar sem ætlaðar hafa verið til markaðssóknar í ferðamálum hafa verið skornar niður um 170 millj. kr. Það hefði frekar verið þörf á að bæta þar í og auka. Ég tel að ríkið hefði átt að koma mjög myndarlega að því að byggja upp upplýsingamiðstöðvar ferðamála sem störfuðu á heilsársgrunni sem víðast um landið. Slík þjónusta nýtist öllum og væri til að styrkja þessa atvinnugrein.

Ég skora á hæstv. samgönguráðherra og hæstv. iðnaðarráðherra að taka af krafti á málum ferðaþjónustunnar. Hún er einn mesti vaxtarsprotinn í íslensku atvinnulífi og afar mikilvæg fyrir atvinnulíf, byggð, búsetu og þjónustu um allt land.

Frú forseti. Nefna mætti fleiri almenn atriði sem taka þarf á til að styrkja samkeppnishæfni byggðar og búsetu um land allt.