131. löggjafarþing — 14. fundur,  21. okt. 2004.

Byggðaáætlun fyrir árin 2002--2005.

216. mál
[16:24]

Björgvin G. Sigurðsson (Sf) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka hæstv. ráðherra ágæta ræðu. Hann nefndi margt athyglisvert en ég ætla að staldra sérstaklega við þar sem hæstv. ráðherra lauk máli sínu. Þar talaði hann um að fjarskiptin efli byggðirnar og skipti öllu máli fyrir viðgang og samkeppnishæfi þeirra.

Í því samkomulagi sem gert var og hann ræddi um var Landssímanum gert að uppfylla skilyrði um háhraðatengingar á þéttbýlisstaði með 150 íbúa eða fleiri, alls 69 þéttbýliskjarna. Því spyr ég hæstv. ráðherra: Hvað líður frekara samkomulagi við Landssímann, þjónustufyrirtæki okkar í samskiptum, við það að gefa öllum íbúum landsins, bæði í þéttbýliskjörnum sem eru með minna en 150 íbúa eða í hinu hreina dreifbýli, aðgengi að háhraðatengingu annað hvort í gegnum örbylgju eða með öðrum hætti? Stendur til að gera slíkt samkomulag við Símann á næstunni?