131. löggjafarþing — 14. fundur,  21. okt. 2004.

Byggðaáætlun fyrir árin 2002--2005.

216. mál
[16:28]

Kristján L. Möller (Sf) (andsvar):

Herra forseti. Í skýrslunni sem var dreift sl. vor sagði m.a. um jöfnun verðs á gagnaflutningi, með leyfi forseta:

„Meginhugmynd: Notendur greiði sama verð fyrir gagnaflutninga á landinu öllu. Markmiðið: Að mishár fjarskiptakostnaður skekki ekki samkeppnisstöðu fyrirtækja og stofnana eftir staðsetningu þeirra. Að þessi munur verði jafnaður með jöfnunargreiðslum úr ríkissjóði. Þessu má líkja við jöfnun á raforkukostnaði sem hefur tíðkast á Íslandi um árabil.

Nú er svo komið að aðgengi að góðum fjarskiptum fer að vega álíka mikið við rekstur fyrirtækja og aðgengi að raforkunetinu. Jöfnun fjarskiptakostnaðar lýtur því sömu rökum og jöfnun raforkukostnaðar.“

Þetta var á ábyrgð samgönguráðuneytisins. Getur hæstv. samgönguráðherra sagt mér hvers vegna hann telji að þetta hafi dottið út úr skýrslunni því þetta er dottið út. Ég spyr þess vegna: Er horfið frá þeim góðu markmiðum sem sett eru upp í því sem ég las hér upp?