131. löggjafarþing — 14. fundur,  21. okt. 2004.

Byggðaáætlun fyrir árin 2002–2005.

216. mál
[16:32]

samgönguráðherra (Sturla Böðvarsson) (S) (andsvar):

Herra forseti. Okkur er það jafnljóst og hv. þingmanni að hagstæðara er að vera í sítengingu en vera með upphringibúnað ef notkun er mikil. Hins vegar getur verið hagkvæmara að nota ISDN-tengingarnar ef notkun er lítil. Þess vegna var gerður sérstakur samningur við Símann um uppsetningu á búnaði sem kallaður er ISDN Plús og er ígildi ADSL-tengingarinnar vegna þess að þar er um sítengingu að ræða sem m.a. ferðaþjónustubændur um allt land hafa notað vegna þess að sambandið er stöðugt. Þegar verið er að panta þjónustu er um sítengingu að ræða en ekki upphringibúnað.

Þetta er því allt saman á sæmilegu róli. Við verðum stundum að sýna smábiðlund.