131. löggjafarþing — 14. fundur,  21. okt. 2004.

Byggðaáætlun fyrir árin 2002--2005.

216. mál
[16:38]

samgönguráðherra (Sturla Böðvarsson) (S) (andsvar):

Virðulegur forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir undirtektir við ræðu mína. Ég er honum sammála um að það skiptir miklu máli að við nýtum okkur þá kosti sem ferðaþjónustan gefur við uppbyggingu atvinnulífsins á landsbyggðinni. Auðvitað eru samgöngumálin einnig lykill að því.

Við getum tekið sem dæmi aðkomu ferðamanna að þjóðgarðssvæðinu við Jökulsárgljúfur og að Dettifossi. Bætt vegasamband er lykill að frekari uppbyggingu þar og ég hef mikinn áhuga á því að það megi ná fram að ganga sem fyrst. En það er mikið verkefni og stórt. En ég fagna þeim góða skilningi sem hv. þingmaður hefur á þessu og það kemur mér ekki á óvart.