131. löggjafarþing — 14. fundur,  21. okt. 2004.

Byggðaáætlun fyrir árin 2002--2005.

216. mál
[16:40]

Jóhann Ársælsson (Sf) (andsvar):

Hæstv. forseti. Hæstv. ráðherra hélt hér almenna ræðu um þessi málefni. Það var út af fyrir sig ágætt. En hæstv. ráðherra er líka 1. þm. Norðvesturkjördæmis og í byggðamálunum hallar fyrst og fremst á það kjördæmi og hefur gert og það stefnir í að þannig verði áfram. Stefnt hefur í ójafnvægi í byggðamálum. Strax og fyrir lá að slíkar framkvæmdir yrðu sem nú eru í gangi á Austfjörðum stefndi í þetta ójafnvægi.

Hæstv. ráðherra hefur tekið að sér þyngsta pokann í niðurskurði hvað varðar vegamálin núna. Ég vil spyrja hæstv. ráðherra: Ætlar hann að beita sér fyrir því að ráðist verði í átak í vegamálum því að vissulega eru þau a.m.k. eins mikilvæg og hann lýsti hér áðan sem byggðaaðgerðir og mundu skila byggðarlögunum mestu í því kjördæmi þar sem hæstv. ráðherra er 1. þm.? Ætlar hann að beita sér fyrir slíku átaki á næstunni?