131. löggjafarþing — 14. fundur,  21. okt. 2004.

Byggðaáætlun fyrir árin 2002--2005.

216. mál
[16:45]

Guðjón A. Kristjánsson (Fl):

Hæstv. forseti. Ég vil nota tækifærið meðan hæstv. samgönguráðherra er enn í salnum og hefja mál mitt á því að víkja orði að ræðu hans, sem var að mörgu leyti ágæt. Ég ætla að fara um hana nokkrum orðum ef hæstv. samgönguráðherra mætti vera að því að hinkra í þrjár til fjórar mínútur meðan ég fer yfir það sem snýr beinlínis að málaflokki hans.

Hæstv. samgönguráðherra sagði réttilega — enda má hann gjörla vita hvað það þýðir að „hamla“ — að við værum að hamla gegn fólksfækkun. Við erum að því, okkur hefur ekki tekist að stöðva fólksfækkunina víða á landinu eða snúa þróuninni við þó vonandi gerist það á komandi missirum og árum eins og á Austfjörðum. En hið gamla orð að „hamla“, sem er komið af því að róa árabát á móti veðri eða vindum, getur þýtt að maður fari aftur á bak. Ég veit að hæstv. ráðherra veit af straumum í Breiðafirði, að þar er auðvelt að hamla og fara á fleygiferð aftur á bak.

Við erum að sumu leyti að gera það í byggðamálunum. Ég geri fastlega ráð fyrir að við séum öll þess sinnis hér inni, og þar með hæstv. ráðherra samgöngumála, Sturla Böðvarsson, að reyna að komast áfram og sitja ekki á sama stað og að snúa við byggðaþróun og byggja undir það að byggðirnar haldi velli og helst eflist.

Þá kem ég að því sem ég vil nefna áður en hæstv. samgönguráðherra yfirgefur salinn. Það eru samgöngumálin, vegna þess að það sem fyrirhugað er í niðurskurðaráætlun ríkisstjórnarinnar í fjárlögum er að draga verulega saman í samgöngumálum, hægja þar á framkvæmdum. Ég óttast mjög, eins og áður hefur komið fram í máli mínu, að dregið verði úr samgöngum m.a. í Norðvesturkjördæminu þar sem mikil þörf er á að halda áfram uppbyggingu á vegakerfinu. Ekki ber að vanþakka það sem þar hefur unnist, þar hafa unnist áfangar, en á þessu landshorni, sérstaklega Vestfjörðunum, er mjög mikið ógert í samgöngumálum eins og hæstv. samgönguráðherra veit mætavel. Þess vegna, þrátt fyrir að við fáum nýja áfanga eins og á Snæfellsnesinu með þverun fjarða og því sem hefur gerst í Ísafjarðardjúpi og á hluta af Barðaströndinni, eins og yfir Kletthálsinn og fleiri svæði sem við höfum verið að taka fyrir, er geysimikið eftir. Ég vil leggja það sérstaklega í umræðuna að hæstv. samgönguráðherra beiti sér mjög hart fyrir því að sá niðurskurður sem gert er ráð fyrir í fjárlagarammanum bitni ekki á því svæði þar sem ég fullyrði að engin þensla er mælanleg.

Það er ekki bara ég sem segi svo. Ég hygg að bæjarstjórnarmenn á Ísafirði hafi tekið nákvæmlega svo til orða, ef ég man rétt, á sameiginlegum fundi sem við vorum á, ég og hæstv. samgönguráðherra, í mars sl. um atvinnumál á Ísafirði. Þar voru bæjarstjórnarfulltrúar einmitt að vara við því hvert stefndi í atvinnumálum á Vestfjarðasvæðinu. Þar var m.a. lögð fyrir samantekt bæjarstjórnarmanna um hvernig þróun opinberra starfa ætti sér stað á Vestfjörðum. Ef ég man rétt úr skýrslunni — ég ætla ekki að fara að lesa hana, hún er reyndar fyrir framan mig eins og fjöldamargar skýrslur um byggðamál á undanförnum árum og ég gæti verið hér í marga klukkutíma að fara í gegnum — var verið að tala um að opinberum störfum gæti fækkað um tíu á næstu mánuðum og missirum á Ísafjarðarsvæðinu.

Ég veit að eitthvað af því hefur snúist til betri vegar, m.a. var verið að opna snjóflóðarannsóknastöð á Ísafirði og er það vel, en það er ekki nóg að hafa áætlanir í byggðamálum. Við höfum haft margar áætlanir, þetta er ekki sú fyrsta, til þess að reyna að sporna við þróuninni, en fólki hefur einfaldlega fækkað á Vestfjörðum og störfum hefur fækkað. Það má orða það svo að af Vestfjarðasvæðinu hafi menn flutt út atvinnuleysi frá svæðinu með því að fólk sem ekki fékk þar vinnu við sitt hæfi fór af svæðinu.

Ég veit að ráðherrann þekkir þetta mætavel, en það sem ég vildi einkum víkja að í máli hans var að við látum það ekki henda að þurfa að fara hamlandi aftur á bak í vegamálum á næstu mánuðum og missirum vegna þess að það er jú sú aðgerð sem getur orðið til þess, m.a. í Norðvesturkjördæminu og sérstaklega á Vestfjarðasvæðinu, að halda uppi atvinnustigi og þeirri þróun að stytta vegalengdir og efla svæðið með samgöngubótunum.

Ég hef svo oft rætt í þessum ræðustóli um fiskveiðistjórnarkerfið og ætla ekki að gera það í mjög löngu máli nú en vekja athygli á því að það sem við höfum aðhafst þar á undanförnum árum hefur orðið til þess að dregið hefur saman í sjávarútvegi og störfum hefur frekar fækkað. Þeim hefur vissulega einnig fækkað vegna tækniþróunar en það fer ekkert á milli mála að þær kvótasetningar sem við höfum verið að setja á undanförnum árum hafa fækkað störfum.

Hins vegar ber að fagna því mjög sem hefur gerst í ferðaþjónustunni. Ég held að hæstv. samgönguráðherra hafi notið stuðnings flestallra þingmanna í þeim málum sem hann hefur unnið að í sambandi við ferðaþjónustuna. Þar er vissulega verið að undirbyggja atvinnuveg sem er sívaxandi og mun m.a. halda uppi byggð og störfum á landsbyggðinni í framtíðinni og því ber vissulega að fagna.

En það ber líka að benda á að einmitt í fjárlagafrumvarpinu er gert ráð fyrir að draga saman í fjárveitingum varðandi markaðssetningu í ferðaþjónustunni, sem ég held að sé alls ekki rétt hugsun miðað við það sem við uppskerum við að efla ferðaþjónustuna og fjölga ferðamönnum um okkar ágæta land. Þar kemur vegakerfið enn og aftur inn í og rétt að vekja athygli á því að þegar við gerum hina nýju áfanga í vegakerfum, m.a. að fara undir fjöll með jarðgöngum, er það svo skrýtið að sumir ferðamenn hafa enn þá áhuga á að aka yfir fjöllin, yfir hina gömlu vegi. Þess vegna vil ég beina því til hæstv. samgönguráðherra að hann hugi að því varðandi vegagerðina að gömlum vegum sé haldið opnum þó að nýir séu teknir í notkun. (Gripið fram í.) Það þarf að hreinsa vegina einu sinni í upphafi sumars svo aka megi yfir þá slysalaust yfir hásumartímann og óhætt sé að vísa ferðamönnum á þær leiðir. Þetta er allt hluti af ferðamennskunni. Sumt fólk vill endilega keyra lengri leið en styttri og við þurfum að taka tillit til þess.

Við þurfum einnig að taka tillit til þess varðandi ferðamannaþjónustuna að vegmerkingar séu með þeim hætti að útlendingar fái skilið hvað við erum að reyna að vísa þeim veginn með. Ég hef oft nefnt þetta áður og ætla ekki að gera það að lengra máli hér.

Að öðru leyti get ég tekið undir mjög margt sem hæstv. ráðherra sagði varðandi samgöngumálin og stefnumótun í þeim, t.d. um Reykjavíkurflugvöll, hvaða þýðingu hann hefur fyrir landsbyggðina. Ég vil einnig minna á, af því að mér fannst að ráðherrann legði mest upp úr því að Flugleiðir væri sá aðili sem mest hefði fjölgað möguleikum að og frá landinu, ég held að hin nýju lággjaldaflugfélög hafi átt þar drjúgan þátt og munu vonandi eiga það í framtíðinni. Síðan megum við náttúrlega ekki gleyma því að við erum komin með nýja og öfluga ferju inn á Austfirði, þannig að það er fjöldamargt sem betur fer sem stuðlar að því að efla samgöngurnar.

Þetta er náttúrlega orðin allt of mikil lofræða að sumu leyti (Gripið fram í: Góð ræða.) um þessi mál, en auðvitað er sumt af því sem hefur gerst jákvætt og annað neikvætt. Það fer ekkert á milli mála að mínu viti að sumt af því sem við höfum aðhafst í stjórnkerfinu, eins og varðandi sjávarútvegsmálin, hefur verið mjög neikvætt fyrir byggðirnar. Það er einfaldlega þannig og ekki hægt að mæla á móti því.

Ég tók eftir því í skýrslunni sem við ræðum, virðulegur forseti, — tíminn flýgur svo hratt að maður kemst ekki yfir helminginn af þeim skýrslum sem eru á borðinu — var örlítill texti um sjávarútvegsmál. Þar segir, með leyfi forseta, á bls. 10:

„Sjávarútvegsráðherra hefur stofnað sérstakan sjóð, AVS-sjóð, sem ætlað er að standa á bak við átak til að auka virði íslenskra sjávarafurða. Á vegum sjóðstjórnar er starfandi sérstakur fiskeldishópur sem m.a. fer með söfnun upplýsinga, samhæfingu, kynningu og stefnumótun varðandi eldi sjávardýra. Á undaförnum árum hefur sjávarútvegsráðherra árlega veitt sérstaka styrki til fiskeldisrannsókna.“

Svo segir að sjávarútvegsráðherra hafi látið semja skýrslu um uppbyggingu seiðaeldis á þorski á Íslandi o.s.frv.

Ég fann aðallega þetta um sjávarútvegsmál í skýrslunni. (Gripið fram í: Mjög jákvætt.) Já, rosalega jákvætt. Það stendur ekki orð um hvað hafi komið út úr skýrslunni, bara að hún hafi verið unnin.

Ég gagnrýni að ekki skuli reynt að greina frá því og sýna með tölulegum upplýsingum hvað hafi verið unnið á vegum sjóðsins annað en að stofna deildir, ráð o.s.frv., hvert hafi verið veitt fé og til hvers það hafi leitt. Mér finnst allt of mikil yfirborðsmennska í skýrslunni um þróun byggðamála og atvinnumála á landsbyggðinni, að afgreiða málið með þessum hætti.

Ég man eftir því að í skýrslunni birtist sú framsetning um aukið verðmæti í sjávarútvegi að hægt væri að auka verðmæti sjávarafurða mjög mikið með því að breyta vinnsluleiðum og auka ferskfiskvinnslu og ferskfiskútflutning. Þar komum við enn og aftur, virðulegi forseti, að vegakerfi landsins og flutningum um þjóðvegina. Það fer ekkert á milli mála að það er mjög mikilvægt hvernig við stöndum að því og ég tel að þar megum við ekki slaka á.

Virðulegur forseti. Ég hef verulegar áhyggjur af því að í kjördæminu sem ég er þingmaður fyrir, Norðvesturkjördæmi, verði það sem kallað hefur verið þensla látin bitna á vegaframkvæmdum í kjördæminu. Við höfum ekki orðið vör við slíka þenslu í kjördæminu annars staðar en í syðsta hlutanum, Hvalfirði, en þar er talsvert að gerast sem mun efla atvinnustigið, þótt ekki sé mikið að gerast þar í stærri atvinnumálum. Ég held að menn verði að horfa til einhverra annarra átta en að hægja á framkvæmdum í Norðvesturkjördæmi, við megum ekki við því að hætt verði við stóra áfanga sem hafa verið fyrirhugaðir þar í mörg ár. Þar á ég við samtengingu norðurs- og suðursvæðis með jarðgöngum úr Dýrafirði í Arnarfjörð, veginn um Barðaströnd fyrir Gufufjörð, Djúpafjörð og yfir Þorskafjörð, áfangann um Ísafjarðardjúpið að fara yfir Mjóafjörð o.s.frv. Þetta eru allt bráðnauðsynlegar aðgerðir þar sem vegirnir eru slakir og ófærir stóran hluta ársins. Ég vil ítreka það í lok máls míns að það er full þörf á þessum framkvæmdum.