131. löggjafarþing — 14. fundur,  21. okt. 2004.

Byggðaáætlun fyrir árin 2002--2005.

216. mál
[17:18]

Magnús Þór Hafsteinsson (Fl):

Virðulegi forseti. Ég biðst forláts á þeim töfum sem urðu á komu minni í þingsal. Ég gerði mér ekki grein fyrir að sá þingmaður sem var á mælendaskrá á undan mér gekk skyndilega úr skaftinu og sat á skrifstofu minni og var að undirbúa ræðuna sem ég ætla að halda núna.

Við ræðum í dag skýrslu hæstv. iðnaðarráðherra um framvindu byggðaáætlunar fyrir árin 2002–2005 á hinu háa Alþingi. Ef maður lítur á skýrsluna er þetta einhvers konar ástandsskýrsla ríkisstjórnarinnar þar sem hún leitast við að horfa um öxl og mæra afrek sín í byggðapólitík síðustu tvö árin.

Eins og landsmenn hafa því miður fengið að kenna á hafa byggðamálin verið á könnu hæstv. iðnaðarráðherra, Valgerðar Sverrisdóttur, og það vakti því nokkra kátínu mína að sjá í póstkassa þingmanna í morgun fallegan bækling sem búið var að dreifa til okkar eins og gotti í skóinn. Frá hverjum var bæklingurinn? Hann var frá iðnaðar- og viðskiptaráðherra Framsóknarflokksins. Þetta er áróðursbæklingur í dýru og vönduðu broti þar sem klifað er á stórkostlegum afrekum í byggðastefnu stjórnarinnar.

Hann er náttúrlega fullur af mikilli skrúðmælgi sem einkennist af slagorðakenndum upphrópunum í bland við mjög fallega hönnun og hefur eflaust kostað skildinginn. Já, það kostar að hanga eins og hundur á roði á valdastólunum þegar maður hefur aðeins 15% fylgi landsmanna á bak við sig eða vonandi þaðan af minna.

En hvað segir í bæklingnum sem mér sýnist að sé unninn úr skýrslunni, hinni 27 blaðsíðna skýrslu sem við höfum rætt í dag á hinu háa Alþingi?

Mig langar að vitna aðeins í fyrstu síðu, en þar eru markmið byggðastefnu ríkisstjórnarinnar skilgreind á eftirfarandi hátt, með leyfi forseta:

„Markmið byggðastefnu á Íslandi er að jafna og bæta lífskjör og skapa öllum landsmönnum hagstæð búsetuskilyrði. Til þess að tryggja búsetu á landsbyggðinni þarf að stuðla að traustu og fjölbreyttu atvinnulífi sem býður sérhæfðu og menntuðu fólki tækifæri. Við framkvæmd byggðaáætlunar hefur iðnaðarráðuneytið lagt áherslu á“ — og hér kemur stórt letur — „þróun byggðar á grundvelli þekkingar og nýsköpunar og staðið“ — hér kemur minna letur — „í samvinnu við önnur ráðuneyti og fjölmarga aðila víðs vegar um landið að framsæknum verkefnum í þessum anda.“

Svo eru hin framsæknu verkefni kynnt hvert á fætur öðru bæklinginn í gegn.

Það er líka komið inn á verkefnin í skýrslunni sem liggur fyrir hinu háa Alþingi sem virðist, eins og ég sagði áðan, vera einhvers konar tilraun til að líta um öxl tvö ár aftur í tímann og velta líka aðeins fyrir sér framtíðinni. Í skýrslunni kemur fram að hvorki meira né minna en fulltrúar níu ráðuneyta hafa tekið þátt í að vinna að byggðaáætluninni í gegnum sérstaka verkefnastjórn. Mér finnst skýrslan öll bera þess merki að ótalmörg ráðuneyti hafa komið að verkefninu og verð að segja alveg eins og er að það gerir það að verkum að mér finnst þetta allt saman hálfruglingslegt þegar maður les í gegnum það, eins og þetta sé ekki nógu heilsteypt og markvisst. Það leiðir þá aftur hugann að þeim hugmyndum sem fram hafa komið á Alþingi um að fækka beri ráðuneytum og einfalda stjórnsýsluna í litla landinu okkar, m.a. með því að sameina iðnaðarráðuneytið, landbúnaðarráðuneytið og sjávarútvegsráðuneyti undir nýtt atvinnuvegaráðuneyti. Þá hefðum við getað fækkað þeim ráðuneytum sem unnu að áætluninni úr níu í sex. Ég tel að það hefði orðið til bóta.

Í byrjun skýrslunnar er komið að framkvæmdunum á Austurlandi. Þar eiga sér stað mestu framkvæmdir Íslandssögunnar og núverandi ríkisstjórn sem ber náttúrlega ábyrgð á þeim framkvæmdum. Ég vil, áður en ég held áfram, lýsa því yfir að ég lýsi fullum stuðningi við þær framkvæmdir og það sem verið er að gera á Austfjörðum, enda allt of seint að snúa við, ákvörðun hefur verið tekin, við höfum hafið framkvæmdirnar og ég tel að okkur beri öllum að vinna að því sem ein samhent þjóð að útkoman úr þeim framkvæmdum verði okkur öllum til heilla.

Hins vegar hnýt ég um eina setningu á bls. 3 og hefði gaman af því að fá svar hjá hæstv. iðnaðar- og byggðamálaráðherra við því. Hér stendur nefnilega að framkvæmdin fyrir austan, þ.e. Kárahnjúkavirkjun og bygging álvers á Reyðarfirði, hafi þegar haft mjög mikil áhrif á atvinnuástand og íbúaþróun á Austurlandi þó svo að hún sé rétt farin af stað.

Virðulegi forseti. Ég er með frétt úr fjölmiðli frá 13. október sl. frá útvarpsstöðinni Bylgjunni þar sem fram kemur að aðfluttum erlendum ríkisborgurum hafi fjölgað. Af útlendingum hér á landi eru Portúgalar langfjölmennastir eða um 90. Þá fjölgun má einmitt rekja til framkvæmdanna á Austurlandi. Hins vegar hefur Austfirðingum á Austfjörðum fækkað um 12, og fjölgunin á Austurlandi hefur aðeins verið vegna aðfluttra útlendinga. Það væri gaman að fá hreinskilið svar frá hæstv. ráðherra hvort þetta bendi ekki til þess að við séum að gera eitthvað rangt fyrir austan því ekki ætluðum við að fara út í þessar gríðarlegu framkvæmdir til þess að bæta atvinnuástand í Portúgal eða bæta byggðamál í Portúgal. Við ætluðum að gera þetta fyrir okkur, fyrir byggðina og fyrir fólkið sem býr á Austurlandi. Það væri góðra gjalda vert að taka svolitla umræðu um þetta á Alþingi þó mér sýnist reyndar því miður að ríkisstjórnarflokkarnir kinoki sér við því að taka umræður um þau vandamál sem við glímum við á hverjum tíma og barmi sér sáran undan því að fara í umræður um þau vandamál sem á bjáta á hverjum tíma.

Gott dæmi um það var þegar hv. þm. Birkir J. Jónsson kvartaði yfir því að Frjálslyndi flokkurinn hefði vogað sér að biðja um utandagskrárumræðu um atvinnuástandið á Siglufirði, sem er þó hlutur sem sjálfsagt er að ræða því ástandið þar er nokkuð slæmt. Það er skylda okkar stjórnmálamanna að taka á þeim vandamálum sem upp koma á hverjum tíma. Við eigum ekki að kinoka okkur við því að ræða þau mál og við eigum alls ekki kvarta yfir því að það verði hugsanlega neikvæð umræða, því hvernig getur það verið neikvæð umræða þegar við ræðum vandamál sem steðja að einhverju bæjarfélagi með það að leiðarljósi að reyna að bæta úr þeim vandamálum? Ég get ekki ímyndað mér að það sé neikvætt, það hlýtur að vera jákvætt. Það er farið í þá umræðu af góðum og opnum huga, alla vega af hálfu okkar sem höfum óskað eftir henni. En nóg um það, frú forseti.

Í gær var umræða í fyrirspurnatíma um flutning opinberra starfa út á landsbyggðina. Þar var m.a. komið stuttlega inn á landbúnaðarskólana. Við höfum jú stofnað nýjan landbúnaðarháskóla á Hvanneyri, flutt þangað Rannsóknastofnun landbúnaðarins. Ég vona svo sannarlega að sá skóli megi verða öflugur í framtíðinni og okkur öllum til heilla. Ég kom aðeins inn á það í máli mínu í gær að mér þætti ríkisstjórnin ekki sýna nógu mikið áræði í því að íhuga að flytja ríkisstofnanir út á land, að þar væri alls ekki nóg að gert og alls ekki nógu hratt unnið. Mér finnst það skjóta mjög skökku við því mér þykir flutningur ríkisstofnana út á land hafa verið mjög vel heppnaður. Við sjáum Byggðastofnun á Sauðárkróki, Landmælingar Íslands á Akranesi, stofnun Háskólans á Akureyri og fleiri dæmi mætti telja. Þá hlýtur maður að spyrja: Hvers vegna er ekki meira gert af þessu? Af hverju má t.d. ekki flytja Veiðimálastofnun til Landbúnaðarháskólans í Borgarfirði þar sem ríkustu laxveiðiár landsins eru? Hvers vegna í ósköpunum eigum við að láta aðalstöðvar Veiðimálastofnunar kúldrast í iðnaðarhverfi á Ártúnshöfða innan um bílaverkstæðin þar? Sú stofnun er mjög mikilvæg og sinnir mjög dýrmætu og merkilegu starfi sem varðar fiskrækt í ám og vötnum landsins sem við höfum nýlega fengið staðfest í skýrslu að skilar okkur gríðarlegum tekjum á hverju ári. Því er mjög mikilvægt fyrir byggðina í landinu að sú stofnun verði flutt í sitt rétta umhverfi ef svo má segja og jafnframt efld eins og kostur er.

Önnur stofnun sem mig langar að nefna í þessu sambandi er Landhelgisgæslan. Mér þykir alveg þess virði að íhuga mjög vandlega að hún verði flutt til Suðurnesja, þ.e. skipin, og jafnvel flugvélin þeirra líka á Keflavíkurflugvöll þótt þyrlurnar gætu að sjálfsögðu haft bækistöð á Reykjavíkurflugvelli í grennd við bestu og stærstu sjúkrahús okkar og þar sem umferðin er oftast mest, því þyrlurnar eru jú eins og við vitum oft notaðar þegar alvarleg slys verða á vegum okkar.

Fleiri hugmyndir mætti nefna. Það má t.d. flytja stóran hluta af starfsemi Hafrannsóknastofnunar út á land. Það er engin ástæða til að dengja því öllu saman í eitt hús við Skúlagötu í Reykjavík, það er hægt að sinna þeim stofnunum frá stöðum eins og Ísafirði, Akureyri og jafnvel Vestmannaeyjum eða Hornafirði.

Ég sé að tími minn líður hratt, allt of hratt, en hér er líka nefnt fiskeldi og þá hnaut ég um eitt, að þegar Steinullarverksmiðjan var seld — þetta er á bls. 10 í skýrslunni — er greint frá því að andvirði hennar var m.a. notað til samgöngubóta og til annarra verkefna í þeim sveitarfélögum sem ættu verulegra hagsmuna að gæta vegna þeirrar verksmiðju. Þar var m.a. varið 35 millj. kr. til að ljúka tilraunum við barraeldi í samvinnu við Nýsköpunarsjóð. Nú veit ég ekki betur en það eldi sé orðið gjaldþrota og því langar mig að spyrja hvort þeir peningar hafi tapast.

Gaman væri að fá að vita hvað varð um þessar 70 milljónir sem fóru til fiskeldisrannsókna við Hólaskóla. Ég spyr af einskærri forvitni en ekki vegna þess að ég hafi neinn grun um að þeim peningum hafi endilega verið illa varið.

Annars tel ég að hið opinbera ætti að fara svolítið varlega í þorskeldi. Ég vil segja það, og tel mig hafa nokkurt vit þar á sem háskólamenntaður í fiskeldisfræðum, að þorskeldi muni seint verða stundað með hagkvæmum hætti. Afkastageta Íslandsmiða er það gríðarleg ef rétt er að málum staðið að veiðar munu alltaf verða samkeppnisfærari en þorskeldið í framtíðinni, þ.e. ef við höldum rétt á spilunum varðandi nýtingu fiskstofna. En ég ætla nú ekki að fara nánar út í þá sálma í þessari ræðu.

Hið sama má kannski segja um laxeldið. Við sem erum í sjávarútvegsnefnd Alþingis fengum nýlega mjög áreiðanlegar heimildir um að laxeldið er því miður langt í frá að skila þeim hagnaði sem menn höfðu vonast til og málsmetandi menn í þeirri grein sögðu við okkur að sennilega yrðu Norðmenn alltaf miklu samkeppnisfærari en við í því að ala lax. Hins vegar tel ég að bleikjueldi eigi mikla framtíð fyrir sér á Íslandi og sjálfsagt að hið opinbera og þá þeir sem fara með byggðamál hér á landi líti nánar og með jákvæðari huga til þeirra hluta.

Ég ætla svo sem ekki að hafa ræðu mína miklu lengri núna. Ég hefði að sjálfsögðu viljað nota tíma minn til að koma inn á það sem ég tel mál málanna hvað varðar landsbyggðina, eða eitt af málum málanna. Það er að sjálfsögðu framkvæmd sjávarútvegsstefnu okkar sem ég tel að hafi haft mjög neikvæð áhrif á byggðir landsins. Þetta er málaflokkur sem ég tel að auðvelt væri að kippa í liðinn án þess að allt of mikil áhætta væri tekin varðandi nýtingu á fiskstofnum. Ef réttar aðgerðir yrðu viðhafðar þar, þ.e. ef okkur einhvern tíma tækist að fá stjórnarflokkana til að sjá ljósið og koma fyrir þá vitinu í þeim málum ef svo má segja, þá gætum við unnið þar verk sem jöðruðu nánast við kraftaverk. Þar á ég að sjálfsögðu við það að þessum litlu byggðum allt í kringum landið verði gefið aukið frelsi til að nýta sínar mikilvægustu náttúruauðlindir sem eru að sjálfsögðu fiskurinn í sjónum. Það er nú einu sinni svo að það er alveg sama hversu mörg hundruð milljónum við eyðum í þessi byggðaverkefni því það er bara staðreynd að þessar byggðir risu upphaflega vegna nálægðar sinnar við fiskstofnana í hafinu sem eru auðæfi þeirra og aldrei verður af þeim tekin sú staðreynd að þær standa fyrst og fremst og falla með því. Allt annað eru hlutir sem verða og munu byggjast þar ofan á. Það er staðreynd sem við verðum að fara að skilja.