131. löggjafarþing — 14. fundur,  21. okt. 2004.

Dagskrá fundarins.

[17:36]

Kristján L. Möller (Sf):

Herra forseti. Ég verð að gera athugasemdir við það þegar hlaupið er svona á milli liða eins og hér hefur verið gert. Mér finnst það lágmarkskurteisi frá hendi hæstv. forseta sem stýrir fundi og lætur þetta ganga hérna fram að við fulltrúar flokkanna sem hér sitjum fáum þá að vita hvað er á dagskrá og hvað hæstv. forseti er að hugsa í þessu.

Nú ætla ég ekki að gera vesen vegna þess að tekin eru fyrir af dagskrá mál hv. varaþingmanna sem eru að hverfa út af þingi eftir þennan dag þannig að þeir geti mælt fyrir frumvörpum sínum og heldur ekki vegna þess sem verið er að gera hér við þriðja dagskrárliðinn. En ég leyfi mér, virðulegi forseti, að spyrjast fyrir um framhaldið þegar þetta er búið. Og nú þegar klukkan er tuttugu mínútur í sex á fimmtudegi og margir þingmenn eru í burtu og hafa gert ráðstafanir þá mælist ég til þess að umræðu um annan dagskrárliðinn, þ.e. Byggðaáætlun fyrir 2002–2005 verði frestað í framhaldi af því eða að við höldum áfram kannski til rúmlega sex — eitthvað svoleiðis — en svo verði þeirri umræðu frestað.

Ég mælist til þess, virðulegi forseti, að ekki verði teknir upp þeir stjórnunarhættir sem viðhafðir voru hér áður vegna þess að ég held að það auðveldi ekki þingstörf. Ég legg til að forseti leyfi okkur þingmönnum sem hér eru í sal og eigum eftir að taka aftur til máls að vita hvert framhaldið er og ég vil spyrja virðulega forseta hvort samkomulag gæti ekki orðið um að fresta umræðunni um byggðamál þegar klukkan verður orðin svona korter yfir sex. Ég segi fyrir mitt leyti að við sem erum á mælendaskrá eigum eftir að ræða hér ýmis mál og kannski kalla til ráðherra.