131. löggjafarþing — 14. fundur,  21. okt. 2004.

Veggjald í Hvalfjarðargöng.

75. mál
[18:02]

Guðjón A. Kristjánsson (Fl):

Hæstv. forseti. Það mál sem við erum hér að ræða, niðurfelling á gjaldtöku eða veruleg lækkun á veggjöldum í Hvalfjarðargöngum, er hið þarfasta. Auðvitað hafa menn áður rætt það eins og kom fram í máli síðasta ræðumanns, m.a. með fyrirspurnum hér á þingi.

Ég vil tjá þá skoðun mína að það sé orðið fyllilega tímabært að vinna að því að fella niður þessa gjaldtöku. Það kann vel að vera skynsamlegt að gera það í áföngum, enda mælir sú tillaga sem hér er lögð fram ekki nákvæmlega fyrir um hvernig þetta skuli gert, heldur að að þessu skuli stefnt og að til þess verði sett af stað vinna sem færi m.a. fram í samgöngunefnd þar sem sá sem hér stendur á sæti. Ég fagna því að þessi tillaga skuli komin fram og þakka hv. þm. Guðjóni Guðmundssyni fyrir að hafa komið með þetta mál í þessum búningi inn í þingið.

Það fer ekkert á milli mála, hæstv. forseti, að ein af arðsömustu framkvæmdum til langs tíma litið sem við getum staðið að í vegamálum hér á landi er að stytta vegalengdir, hvort sem við gerum það með jarðgöngum undir fjallvegi, undir firði eða með þverun fjarða eða öðrum þeim vegaframkvæmdum sem hafa veruleg áhrif til þess að stytta vegalengdir milli landsvæða, atvinnusvæða og líka innan héraða. Það sem við gerum í þessari vegagerð hef ég stundum í ræðum mínum kallað varanlegar lausnir, þ.e. að við séum þá hætt að líta til þess að klöngrast mikið yfir fjallvegi til framtíðar, heldur horfum til þess að gera varanlegar lausnir sem leiða til varanlegrar vegstyttingar og varanlegra samgöngubóta.

Ég tel að allt sem við gerum í þá veru þótt dýrt sé þegar það er framkvæmt skili sér margfalt fyrir þjóðfélagið þegar upp er staðið. Ég held að Hvalfjarðargöngin t.d. og Vestfjarðagöngin undir Breiðadals- og Botnsheiðar hafi sýnt það rækilega í báðum tilvikunum að umferðaröryggi á þessum leiðum hefur margfaldast. Sem betur fer hefur alvarlegum slysum og jafnvel dauðaslysum, eins og fyrir Hvalfjörð og yfir heiðarnar fyrir vestan, fækkað þar sem þau voru áður algeng. Lítið er um slys í Hvalfjarðargöngum og Vestfjarðagöngum. Það fer ekkert á milli mála að með slíkum vegaframkvæmdum erum við ekki bara að stytta leiðir heldur erum við að auka umferðaröryggið geysilega mikið.

Við erum líka að tryggja að fólk viti nokkurn veginn 100% að það komist á milli staða, nánast við hvaða veðuraðstæður sem er. Þótt vissulega geti þau veður gert á landi hér að menn komist jafnvel ekki um láglendisvegina heyrir það til algjörra undantekninga.

Þess vegna hefur sá sem hér stendur verið mikill talsmaður þess að þegar við horfum til endurbóta á vegakerfinu sættum við okkur við það í sumum tilvikum að keyra lengur á malarvegunum en fá í staðinn varanlegar lausnir sem duga mönnum áratugum saman, lausnir sem stytta vegalengdir, efla samgöngumöguleikana á milli staða og ekki síst auka umferðaröryggið og öryggi vegfarenda.

Ég hef margsagt það úr þessum ræðustól að þannig vildi ég sjá hugsunina í sambandi við vegaframkvæmdir. Við verðum að sætta okkur við að þurfa jafnvel að aka einhver ár á malarvegi og fá í staðinn varanlega samgöngubót sem við búum að áratugum og öldum saman. Jarðgöng eru vissulega dæmi um slíkt.

Það er líka algjörlega rétt sem kom fram í máli hv. flutningsmanns að Hvalfjarðargöngin eru einu göngin þar sem tekið er gjald. Hér standa yfir kostnaðarsamar framkvæmdir og ekki eru tekin nein gjöld fyrir og stendur ekki til, a.m.k. eins og stefnumótun er í dag. Menn höfðu miklar efasemdir um framkvæmdirnar undir Hvalfjörð á sínum tíma. Menn höfðu talsverða vantrú á því að vel tækist að gera göng undir fjörð eins og gerð voru í Hvalfirði.

Hingað hefur komið fólk frá öðrum löndum til að kynna sér hvernig þessi göng hafa reynst og það hefur tekið mið af því í öðrum löndum að við framkvæmdum hér nokkuð sem menn voru kannski hálfhræddir við, sumir. Áhuginn var vissulega til staðar en menn óttuðust að eitthvað við framkvæmdina gengi ekki upp þar sem farið yrði undir sjó. Reynslan hefur hins vegar sýnt að þetta var ástæðulaus ótti enda er tækniþekkingin það mikil orðin hér á landi og hefur farið vaxandi með aukinni jarðgangagerð. Ég tel því enga spurningu um að við eigum að horfa til þess að gera jarðgöng þar sem við viljum horfa til varanlegra lausna.

Ég held að það sem lagt er upp í þessari tillögu um niðurfellingu eða verulega lækkun gjaldtöku í Hvalfjarðargöngum eigi fyllsta rétt á sér. Ég styð þess vegna tillöguna um að að því verði unnið. E.t.v. þurfa menn að vinna verkið og greiða skuldirnar niður í áföngum með því að ríkið taki þær að sér en að því ber auðvitað að stefna sem allra fyrst og búa til um það skynsamlega áætlun og skynsamlega niðurstöðu.