131. löggjafarþing — 14. fundur,  21. okt. 2004.

Veggjald í Hvalfjarðargöng.

75. mál
[18:33]

Steingrímur J. Sigfússon (Vg) (andsvar):

Herra forseti. Mér heyrist að við séum ekki svo mjög ósammála þegar upp er staðið, nema þá kannski helst um það hvort til álita komi í stöðunni og sé kostur að fella gjaldið með öllu niður sem ég hlýt að lýsa vissum efasemdum um en á hinn bóginn miklum vilja til þess að skoða það. Vísa ég þá bæði til þess að breyta gjaldskránni, skoða afskriftartímann og samræma þetta þeirri stefnu sem menn þurfa nauðsynlega að móta til að takast á við möguleg önnur tilvik af þessu tagi.

Ég vísa aftur til þess sem ég hef verið að draga inn í umræðuna frá Noregi og BOMA-peningakerfisins sem þeir nota vegna stórframkvæmdanna á Óslóarsvæðinu.

Dæmi sem er nauðaskylt Hvalfjarðargöngunum er auðvitað Vaðlaheiðargöngin sem mikill áhugi er á fyrir norðan og væri gríðarlega góð samgöngu- og byggðaaðgerð á því svæði, sennilega eitt það gáfulegasta sem menn gætu gert þar í því sambandi, næst á eftir því þegar menn stofnuðu háskólann, því það mundi stórbæta aðstæður austur um allt Norðurland og tengingu Norðurlands og Austurlands. Það væri aftur valkvæður kostur. Víkurskarðsvegur og Dalsmynni yrði áfram opið, meira að segja gamla Vaðlaheiðin fyrir þá sem vilja fara hana sér til yndisauka, og þeim vegum yrði haldið við og þeir yrðu opnir. Menn ættu valið ef þeir vildu nýta sér hagræðið og styttinguna sem fólgin væri í því að stinga sér undir Vaðlaheiðina og spara sér 15 km og vond veður um vetur o.s.frv., og borguðu eitthvað. Þeirri gjaldtöku yrði auðvitað að stilla þannig í hóf að nýtingin yrði mikil og hún tæki eitthvert mið af ávinningnum sem menn hefðu af því að njóta samgöngubótanna. Einhvern veginn svona verður að reyna að nálgast þetta, á efnislegum og sanngjörnum forsendum að sjálfsögðu. Ég tel mjög mikilvægt að reyna að hafa gjaldskrána þannig að hún sé sanngjörn, endurspegli með sanngjörnum hætti hagræðið hvort sem af menn skjótast þetta einstöku sinnum eða nota slík mannvirki að staðaldri.