131. löggjafarþing — 14. fundur,  21. okt. 2004.

Veggjald í Hvalfjarðargöng.

75. mál
[19:06]

Jóhann Ársælsson (Sf) (andsvar):

Hæstv. forseti. Hæstv. forseti þingsins, hv. þm. Halldór Blöndal, er fyrrverandi samgönguráðherra og þekkir þessi mál ágætlega. Hann var að senda núverandi hæstv. samgönguráðherra sneið með því að tala um að þetta ákvæði væri í samningum við Spöl. Ég held hins vegar að hæstv. samgönguráðherra eigi ekki þá sneið skilið. Ég er viss um að hann veit vel um þetta ákvæði og hefur talað um að það kæmi til greina að fjármagna Sundabraut með veggjöldum þrátt fyrir ákvæðið. Auðvitað þýðir það að ná þarf samkomulagi við Spöl um einhvers konar endurskoðun á þeim samningi sem þar er. Auðvitað er það líka svo að innheimta á veggjöldum, ef hún verður notuð áfram, getur farið fram öðruvísi en gert er í Hvalfjarðargöngum. Spölur gæti sem best séð um þá innheimtu, þó að hún yrði algjörlega sjálfvirk á Sundabrautinni.

Það hafa líka verið skoðaðar hugmyndir um að bæta við Hvalfjarðargöngin í áföngum og fyrir liggja ákveðnar hugmyndir um hvernig standa ætti að því. Ég held að það geti allt farið heim og saman. Fyrst og fremst þurfa menn að horfa til þess að sanngirni sé í þeim gjöldum sem á eru lögð og að þau komi ekki niður með mjög harkalegum hætti á einstökum svæðum. Ég held að hægt sé að vinna út úr þessum hlutum skynsamlegar niðurstöður og mér finnst að við séum svo sem allir samherjar í þeirri hugsun sem er hér. Ég fyrir mitt leyti útiloka ekki veggjöld.