131. löggjafarþing — 14. fundur,  21. okt. 2004.

Umgengni um nytjastofna sjávar o.fl.

215. mál
[19:34]

Magnús Þór Hafsteinsson (Fl):

Virðulegi forseti. Þetta frumvarp til laga sem hv. þm. Örlygur Hnefill Jónsson mælti fyrir áðan er mikið fagnaðarefni og mjög skynsamleg ráðstöfun. Hann hefur fengið með sér ótal flutningsmenn úr öllum flokkum, þar af eina sjö úr sjávarútvegsnefnd, og sá sem hér stendur og talar er einn af þeim. Ég á fyrir vikið ekki von á öðru en að þetta frumvarp fái skjóta og örugga meðferð í nefndinni, hagsmunaaðilar og aðrir þeir sem málið varðar munu að sjálfsögðu skila umsögnum sínum en þær umsagnir hljóta að verða jákvæðar því hér er um sjálfsagt réttlætismál að ræða.

Hæstv. forseti. Á undanförnum árum hafa fallið dómar sem hafa verið mjög ósanngjarnir og hafa misboðið réttlætiskennd landsmanna mjög gróflega vegna þess að refsiviðurlögin við þeim afbrotum — sem oft hafa verið lítil — hafa gersamlega verið út yfir öll skynsamleg mörk. Menn hafa sem sagt fengið dóma, 400 þús. kr. sekt eða 40 daga fangelsi fyrir litlar sem engar yfirsjónir, oft og tíðum fyrir yfirsjónir þar sem nánast hefur verið sannað að annaðhvort hafi verið um gáleysi að ræða eða þá hreinlega handvömm af hálfu opinberra embættismanna.

Ég get nefnt dæmi um trillukarl sem var dæmdur í Héraðsdómi Vestfjarða árið 2001 fyrir að henda eða sleppa út 50 smáþorskum þegar hann var á línuveiðum, einyrki, fullorðinn maður. Hann fékk 400 þús. kr. sekt fyrir þetta ellegar 40 daga í fangelsi. Þessi dómur olli gríðarlegri reiði á Vestfjörðum og menn muna enn mjög vel eftir þessu máli.

Ég man eftir einu máli í fyrra þar sem Hæstiréttur kvað upp dóm sem ég varð mjög reiður yfir. Það var afskaplega ósanngjarn dómur. Þar var fátækur einyrki sem stundaði línuveiðar við suðurströndina, með svokallaðri línulóð — það er lína sem er eingöngu fyrir lúðu, stórlúðu, mjög stórir krókar, sem aðrir fiskar en stórlúða geta ekki bitið á — honum varð það á vegna handvammar í sjávarútvegsráðuneytinu sem sendi ekki út viðunandi tilkynningar til sjómanna að leggja þessa línu í hólf sem var friðað fyrir línuveiðum til að vernda smákeilu. Þessi maður var ekki að veiða keilu enda var hann ekki með veiðarfæri til að veiða hana. Hann var hins vegar með línu sem var með mjög stórum krókum. Þessi maður var hirtur af heilu varðskipi, þessi eini maður þar sem hann var við veiðar, og dreginn inn til Vestmannaeyja eins og hver annar glæpamaður og yfir honum var réttað. Málið fór alla leið í Hæstarétt. Í fyrrahaust, ef ég man rétt, þ.e. fyrir réttu ári, kvað Hæstiréttur upp dóm í málinu þar sem þessi maður var dæmdur í 400 þús. kr. sekt, afli var gerður upptækur, sömuleiðis veiðarfærin og honum var hótað fangelsi ef hann greiddi ekki sektina. Þessi maður hafði verið þarna að stunda sín heiðarlegu störf í góðri trú. Í raun og veru efaðist enginn um að hann hefði verið að veiðum þarna í góðri trú. Ég efast meira að segja um að hæstaréttardómararnir hafi verið í vafa um það en þeir gátu eiginlega ekki dæmt öðruvísi vegna þess að lagabókstafurinn var með þessum hætti.

Það er alveg ljóst að þegar lagabókstafurinn er svona ofboðslega strangur og ferkantaður á alla vegu misbýður þetta réttlætiskennd landsmanna og þetta hlýtur að grafa undan virðingu allra, bæði fyrir okkur sem erum hér, löggjafarvaldinu, líka fyrir dómsvaldinu og fyrir þeim reglum sem eru í gildi hverju sinni. Þegar upp er staðið elur þetta á uppreisnaranda. Íslendingar hafa að vísu mjög mikið langlundargeð en það hefur oft sýnt sig að fyrr eða síðar sýður upp úr og menn fá nóg.

Ég tel að þetta frumvarp sé mikil bragarbót og miklu sanngjarnara. Hér er tekið á sektarákvæðunum ef mönnum verður eitthvað á. Þessi þröskuldur, þessi lágmarksþröskuldur sem var mjög hár, 400 þús., er strikaður út. Það er hið besta mál. Hér mun sennilega þá heilbrigð skynsemi og heilbrigð réttlætiskennd dómara í framtíðinni fá að ráða því hvernig dómar í svona málum falla.

Hitt er svo annað mál, hæstv. forseti, að þetta mál vekur upp íhugun um það hvernig við höfum smíðað bæði lagaramma og líka ofboðslegan reglugerðafrumskóg í kringum fiskveiðistjórnarmál okkar. Við höfum komið á fót Fiskistofu sem er orðið geysilega stórt bákn sem á vissan hátt má líta á sem eins konar lögregluvald því hún hefur jú vald til að beita menn svokölluðum stjórnsýslusektum þótt mál fari hvorki fyrir dóm né séu rannsökuð almennilega. Bátar eru hreinlega bara sviptir veiðileyfum í ákveðinn tíma og menn sviptir lifibrauði sínu ef þeir gerast brotlegir við fiskveiðilöggjöfina. Þetta finnst mér mjög alvarlegt mál. Þarna er hægt að dæma menn í stjórnsýslusektir og refsa þeim fyrir einhverjar yfirsjónir en síðan er hægt að refsa þeim í annað sinn með því að kæra þá og senda málin fyrir dóm. Þetta hefur verið gert. Þarna tel ég hreinlega að verið sé að brjóta mannréttindi. Það er verið að refsa mönnum tvisvar sinnum fyrir sömu yfirsjónirnar. Og það hefur verið gert.

Ég tel mjög brýnt að þessi tilteknu mál verði send fyrir Mannréttindadómstól Evrópu til að fá niðurstöðu í þau. Ég tel að stjórnvöldum sé óheimilt að gera þetta. Ég veit að í Noregi hafa menn komist að slíkri niðurstöðu. Það er ekki hægt að beita menn stjórnsýslusektum og dæma þá síðan aftur fyrir rétti fyrir sama mál. Það er hreinlega ólöglegt. Þetta eru mannréttindabrot. Hérna verður ríkisvaldið að taka þá ákvörðun að annaðhvort afnema stjórnsýslusektir, senda bara öll mál fyrir dómstóla og fá niðurstöðu þar, eða láta þessar stjórnsýslusektir duga, láta þar við sitja.

Þessi fiskilögregla sem við höfum á Íslandi í dag, Fiskistofa — það hefur komið fram áður í þessum ræðustól hér á hinu háa Alþingi að í þann málaflokk, rekstur Fiskistofu, eyðum við umtalsverðum fjármunum og miklu meiri fjármunum en við t.d. eyðum í fíkniefnalögregluna. Það er líka mikið umhugsunarefni. Þessi ofboðslegi eftirlitsiðnaður sem hefur verið komið á fót í kringum sjávarútveginn og fiskveiðar tel ég að sé algerlega óþarfur og eigi upphaf sitt í eins konar móðursýki, furðulegri móðursýki. Þarna er verið að kasta á glæ miklum fjármunum sem væri miklu betur varið til annarra og skynsamlegri verka, t.d. til hafrannsókna sem mjög skortir á að við höfum nægt fjármagn til að stunda almennilega.

Það kom fram í morgun á fundi sjávarútvegsnefndar þar sem við fengum á fund okkar forstjóra Hafrannsóknastofnunar til að ræða fjárlög að Hafrannsóknastofnun býr við gríðarlega kröpp kjör og á í mjög miklum vandræðum, m.a. með að afla nauðsynlegra gagna sem gætu nýst okkur m.a. í samningaviðræðum við Norðmenn. Hér er ég að tala um norsk-íslenska síldarstofninn sem er nú farinn að veiðast í bland við íslenska síld fyrir austan land. Hafrannsóknastofnun hefur ekki peninga til að fylgjast með þessu, til að greina þennan afla, til að safna upplýsingum um það hversu mikið af þessari norsk-íslensku síld veiðist núna við Ísland, vegna þess að þar ríkir yfirvinnubann. Starfsmönnum Hafrannsóknastofnunar er bannað að vinna yfirvinnu. Þetta er náttúrlega alveg fáránlegt. Það sjá allir að hér er um gríðarlegt hagsmunamál að ræða fyrir okkur Íslendinga. Við stöndum í erfiðum samningaviðræðum við Norðmenn og við náum ekki að afla okkur nógu góðra gagna vegna þess að hjá Hafrannsóknastofnun ríkir yfirvinnubann.

Það er svo sem hægt að flytja mjög langa ræðu um þetta. Mér blöskra allar þessar reglugerðir og það hvernig þeim hefur verið framfylgt, hvernig menn nánast hafa verið hundeltir fyrir litlar sem engar yfirsjónir, á meðan aðrir jafnvel — við höfum líka dæmi um hitt — á meðan stjórnvöld hafa séð í gegnum fingur sér með yfirsjónir annarra. Þar hefur oft læðst að manni sá grunur að þar ráði jafnvel að einhverju leyti för hversu mikinn kvóta menn eiga, þ.e. að kvótasterkir aðilar fái vægari dóma fyrir yfirsjónir sínar, afbrot sín, en þeir sem eru fátækir og eiga enga kvóta. Það er náttúrlega hróplegt ranglæti þegar slíkt á sér stað.

Ég tel mig hafa haldfastar sannanir fyrir því að slíkt hafi reyndar átt sér stað þó að ég ætli ekki að fara út í það hér í smáatriðum. Eflaust mun gefast betri tími til að fara í það síðar, og ekki vanþörf á.

Að lokum, herra forseti, vil ég enn og aftur ítreka ánægju mína með frumvarpið. Eins og ég sagði hér áðan á ég fyllilega von á því að það fari mjög fljótt í gegnum sjávarútvegsnefnd, að þetta mál verði ekki látið daga þar uppi eins og reyndar allt of mörg góð mál sem hafa komið fram á hinu háa Alþingi. Það hefur verið mælt fyrir þeim hér í þessum ræðustól, þau hafa verið send inn í sjávarútvegsnefnd, allt ferlið sett í gang, umsagnir hafa borist en síðan hefur ekkert gerst. Ég tel að mál sé að slíkri málsmeðferð á Alþingi linni.

Alþingi er stofnun sem er dýr í rekstri. Í hana er eytt bæði miklum tíma og peningum og sjálfsagt og eðlilegt að mál sem á annað borð er vísað til þingnefnda komi út úr þeim aftur og fái almennilega afgreiðslu á hinu háa Alþingi. Annað er hreinlega óverjandi gagnvart skattborgurum og í raun og veru vanvirðing við þingið sem löggjafarsamkomu.