131. löggjafarþing — 16. fundur,  2. nóv. 2004.

Umsvif varnarliðsins.

[13:42]

utanríkisráðherra (Davíð Oddsson) (S):

Herra forseti. Ég þakka hv. þingmanni góð orð í minn garð. Ég mun á morgun svara fyrirspurn sem liggur fyrir um einstaka þætti sem snúa að þessum málum og mun því ekki víkja að þeim hér þingvenju samkvæmt.

Eins og hv. þm. Böðvar Jónsson veit átti ég á sínum tíma, meðan ég gegndi starfi forsætisráðherra, fundi með Bandaríkjaforseta um þessi efni og þar var ákvarðað að málin skyldu ganga til utanríkisráðherra Bandaríkjanna, Colins Powells, og ég mun hitta hann að máli 16. þessa mánaðar, árdegis. Vona ég að á þeim fundi megi takast að færa þetta mál í fastari farveg þannig að úr óvissu gagnvart varnarstöðunni dragi og að vissa ríki í þeim efnum sem allra fyrst.