131. löggjafarþing — 16. fundur,  2. nóv. 2004.

Umsvif varnarliðsins.

[13:51]

Þórunn Sveinbjarnardóttir (Sf):

Hæstv. forseti. Vegna orða hv. þm. Ísólfs Gylfa Pálmasonar held ég að öllum hér inni sé sæmst að telja gamla herstöðvarandstæðinga í sínum röðum áður en þeir byrja að telja þá í öðrum flokkum, líklega öllum nema þingmönnum Sjálfstæðisflokksins.

Í annan stað taldi hann Samfylkinguna hafa ályktað um þessi mál nýverið. Það er rangt hjá þingmanninum. Við erum hins vegar í mjög mikilli málefnavinnu sem verður lögð fyrir landsfund á næsta ári. Sú vinna er öll uppi á borði. Það eru óvenjuleg vinnubrögð sem mörgum reynist reyndar erfitt að skilja og þar hefur ýmislegt verið rætt, en það er opin umræða og hugmyndirnar eru öllum opnar.

Að síðustu finnst mér mesta fréttin í umræðunni á milli sjálfstæðismannanna Böðvars Jónssonar og Davíðs Oddssonar að þeir hafi einhverjar upplýsingar um úrslit forsetakosninganna í Bandaríkjunum sem við hin höfum ekki, að Colin Powell verði áfram í embætti 16. nóvember. Ég veit reyndar að embættistakan er í janúar en þetta er samt svolítið skondið í ljósi þess að í dag fara fram forsetakosningar í Bandaríkjunum.