131. löggjafarþing — 16. fundur,  2. nóv. 2004.

Breytingar á stjórnarskrá.

9. mál
[14:21]

Björgvin G. Sigurðsson (Sf):

Virðulegi forseti. Við ræðum hér merkilega og vel unna tillögu sem hv. þm. Össur Skarphéðinsson gerði ágætlega grein fyrir áðan, þeim atriðum sem hann komst yfir, og hv. þm. Bryndís Hlöðversdóttir fyllti upp í þær eyður.

Ég ætla að staldra við örfá atriði og nefna svo enn eitt sem ekki er hér að finna en ég er sérstakur áhugamaður um beint lýðræði og þjóðaratkvæðagreiðslur og rétt borgaranna til að fara fram á þjóðaratkvæðagreiðslur um þau mál sem tiltekinn hluti borgaranna kýs að kalla í þjóðaratkvæði í beint lýðræði, í beina ákvarðanatöku fólksins sjálfs, og hef í tví- eða þrígang flutt sérstaka tillögu til þingsályktunar um eflingu beins lýðræðis en það er einn af stólpunum í þeirri tillögu sem við ræðum í dag, um breytingar á stjórnarskrá. Þá verð ég að nefna sérstaklega kaflann Landið eitt kjördæmi sem fjallar um að gera landið allt að einu kjördæmi og jafna atkvæðisrétt allra Íslendinga til fulls, en slíka stjórnarskrárbreytingu tel ég vera eitt albrýnasta málið sem við stöndum frammi fyrir á vettvangi lýðræðis og mannréttinda því það eru að mínu mati hrein og klár mannréttindi að allir Íslendingar hafi jafnan atkvæðarétt, að atkvæði allra Íslendinga vegi jafnþungt. Þar fyrir utan yrði slíkt kosningakerfi, ef svo má segja, að landið sé eitt kjördæmi, ákaflega einfalt og auðskilið fyrirkomulag þar sem það væri mjög gagnsætt hvernig leikar fara og stjórnmálaflokkar fá þann þingmannafjölda sem atkvæði þeim greidd segja til um en ekki eftir einhverjum flóknum uppbótarreglum sem fáir bera fullt skynbragð á. Þetta mál hefur verið reifað áður með mjög skýrum hætti. Fyrstur gerði það Héðinn Valdimarsson, forustumaður Dagsbrúnar og þingmaður. Hann flutti frumvarp þess efnis að landið yrði gert að einu kjördæmi árið 1927 og er sú greinargerð glæsilegt vitni um framsýni Héðins og félaga hans og þeirri ríku mannréttindahugsun sem lá til grundvallar allri jafnaðarstefnu þeirra.

Síðar flutti hv. þm. Guðmundur Árni Stefánsson málið og byggir á sömu hefðinni og sama málinu og svo lítur það dagsins ljós í tillögunni sem við ræðum í dag. Það er vel við hæfi þar sem tæp 80 ár eru liðin frá því að Héðinn flutti fyrst tillögu sína um að gera landið að einu kjördæmi og hið gamla kjörorð Héðins „Einn maður — eitt atkvæði“ á við sem aldrei fyrr og á enn fullt erindi við okkur. Vonandi nær þetta fram að ganga eins og margt annað sem hér er lagt til og mjög mikilvægt að mannréttindi okkar Íslendinga séu jöfnuð að þessu leyti.

Annað mál sem ég vil reifa, sem er ekki að finna í þessu plaggi enda ekki eitt af stefnumiðum Samfylkingarinnar eða neins annars stjórnmálaflokks á Íslandi svo að ég viti eins og sakir standa, er um beina kosningu framkvæmdarvaldsins. Vilmundur heitinn Gylfason flutti um þetta þingsályktunartillögu í upphafi níunda áratugarins sem byggði mjög á grein sem Gylfi Þ. Gíslason, faðir Vilmundar, skrifaði í Helgafell töluvert löngu áður, í lok sjöunda áratugarins. Það er mjög glæsileg grein sem er mönnum efniviður í þessar hugmyndir enn þá og höfum ég og hv. þm. Jóhanna Sigurðardóttir að undanförnu verið að ræða og kanna kosti og galla þessara hugmynda um beina kosningu framkvæmdarvaldsins. Hvernig sem þeirri vinnu mun að lokum farnast og hvaða niðurstaða sem kemur út úr henni eru þetta spennandi og öflugar hugmyndir sem okkur ber að taka upp núna rúmum 20 árum eftir að Vilmundur Gylfason flutti um það mjög merkilegt og gott þingmál, um beina kosningu framkvæmdarvaldsins, þar sem slíkt fyrirkomulag getur verið mjög heppilegt. Þar er að finna algeran aðskilnað á milli framkvæmdarvalds og löggjafarvalds en einn stærsti gallinn við það lýðræðisfyrirkomulag sem við búum við í dag, fyrir utan ójafnræði atkvæða, er hvernig framkvæmdarvaldið og löggjafarvaldið rennur saman og sem aldrei fyrr á seinustu árum og missirum og mjög mikilvægt að skoða hvaða leiðir við höfum til að girða fyrir að svo sé og styrkja löggjafarvaldið sem slíkt og skilja það eins mikið frá framkvæmdarvaldinu og hugsast getur.

Vissulega eru til aðrar leiðir eins og þær að ráðherrar gegni ekki þingmennsku. Það er áhrifarík leið til að styrkja þættina hvern með sínum hætti og skilja á milli löggjafarvalds og framkvæmdarvalds. Slík leið hugnast mörgum enda er hún ábyggilega ágæt og væri alla vega ágætisvarða á þeirri leið að skilja rækilega á milli löggjafarvalds og framkvæmdarvalds, en ég er mjög spenntur fyrir þeirri leið að kjósa framkvæmdarvaldið beinni kosningu þó svo að það sé enn sem komið er bara viðhorf mitt. Ég hef ekki leitt það til lykta heldur er ég að velta málinu fyrir mér og skoða kosti þess og galla. Það mætti hugsa sér að þeir sem hefðu safnað tilskildum meðmælendafjölda væru kjörgengir í slíka framkvæmdarvaldskosningu þannig að það gæfi raunverulega mynd af fjölda atkvæðisbærra manna í landinu. Síðan yrði kosið á milli þeirra sem hafa skilað inn fullgildum framboðum en svo yrði önnur umferð þar sem kosið yrði á milli tveggja efstu frambjóðendanna, þeirra tveggja sem hafa hlotið flest atkvæði. Þannig færi fram síðari umferð forsætisráðherrakosningarinnar, eða hvað við mundum kalla embættið sem við kysum um, og síðan mundum við skilgreina reglur eftir hvaða leiðum beinkjörinn forsætisráðherra veldi ríkisstjórn sína, hvort sem hann þyrfti að fá einstaka ráðherra samþykkta í þinginu eða hvernig valið á þeim færi fram. Þetta eru allt útfærsluatriði og allt þættir í þeirri skemmtilegu og spennandi hugmynd sem þeim sem hér stendur þykir bein kosning framkvæmdarvaldsins vera.

Eins og ég gat um áðan erum við hv. þm. Jóhanna Sigurðardóttir að skoða þetta mál upp á nýtt og höfum að sjálfsögðu til hliðsjónar hina mjög svo vönduðu þingsályktunartillögu Vilmundar Gylfasonar og skrif Gylfa Þ. Gíslasonar um þessi mál. Þetta eru mjög efnismikil og vönduð skrif og gaman að bera þau saman við þá lýðræðisþróun sem hefur átt sér stað og lýðræðisástandið á Íslandi í dag, sem mjög auðvelt er að fullyrða að sé ákaflega bágborið og að löggjafinn hafi verið fótumtroðinn af framkvæmdarvaldinu á síðustu árum.

Ég held því að það sé ákaflega brýnt að skoða allar hugmyndir af fullri alvöru um beina kosningu framkvæmdarvaldsins og fullan aðskilnað á milli þessara þátta þannig að flæðið þarna á milli sé ekkert heldur að skýrt sé kosið annars vegar inn á löggjafann og hins vegar sé kosið beinni kosningu um framkvæmdarvaldið. Þetta mun að sjálfsögðu koma til frekari umræðu síðar en ég vildi reifa þetta í umræðunni um breytingar á stjórnarskránni.