131. löggjafarþing — 16. fundur,  2. nóv. 2004.

Breytingar á stjórnarskrá.

9. mál
[14:46]

Kristján L. Möller (Sf):

Hæstv. forseti. Hv. þm. Össur Skarphéðinsson, formaður Samfylkingarinnar, hefur fylgt úr hlaði tillögu til þingsályktunar sem allir þingmenn Samfylkingarinnar flytja, um breytingar á stjórnarskrá. Hún er lögð hér fram í tilefni 60 ára lýðveldisafmælisins, en svo virðist vera, þegar þetta er sagt, að á afmælisdögum lýðveldisins taki menn sig til og breyti stjórnarskránni örlítið samanber það sem samþykkt var árið 1995 í tilefni af hálfrar aldar afmælinu þegar mannréttindakaflanum var umbylt og hann færður í nútímahorf. Þá var jafnræðisregla stjórnarskrárinnar sett í stjórnarskrána, en hún hafði verið ólögfest meginregla fram að þeim tíma.

Þetta er ansi merk tillaga vegna þess að hún tekur á mörgum liðum. Hér eru nefndir níu liðir sem rétt væri að skoða. Auðvitað þarf að færa blessaða stjórnarskrána okkar meira til nútímans, en í greinargerð sést hvernig stjórnarskránni hefur verið breytt af og til, þó lítið og mest í kringum kjördæmabreytingar.

Virðulegi forseti. Ég fer aðeins í gegnum nokkur atriði á þeim stutta tíma sem okkur er skammtaður í þetta og byrja á a-liðnum um sameign þjóðarinnar á náttúruauðlindum. Auðvitað eigum við að vera búin að festa í stjórnarskrá að fiskurinn í sjónum sé sameign okkar allra þannig að það sé bundið í stjórnarskrá. Ég verð að segja að mér finnst töluvert undarlegt þegar útgerðarmenn segja að þeir eigi fiskinn í sjónum vegna kvóta sem þeim hefur verið úthlutað vegna reglu sem var á viðmiðunarárum. Virðulegi forseti. Ég kann miklu betur við það sem aðrir útgerðarmenn segja, þ.e. að þeir hafi nýtingarrétt á þessari sameiginlegu auðlind okkar. Auðvitað á þetta að vera fast í stjórnarskrá og mig minnir að margir stjórnmálaflokkar hafi talað um það.

Ég minnist þess líka, virðulegi forseti, að þegar ég var ungur maður á fundi hjá Alþýðuflokknum þá fjallaði (Gripið fram í.) Bragi Sigurjónsson, þáverandi þingmaður, um tillögu sem hann flutti hér fyrir lifandi löngu. Ég man nú ekki einu sinni hvaða ár það var. Hún var um að heitt vatn í iðrum jarðar væri ekki eign viðkomandi landeigenda. Síðan kom framkvæmdaraðilinn, ríkisvaldið eða sveitarfélagið og boraði langt niður í jörðina, 1.500–2.000 metra, eins og nú tíðkast, til að ná í heitt vatn, þá þurfti hann að greiða sérstakt gjald til viðkomandi landeigenda vegna þess. Auðvitað er heitt vatn í iðrum jarðar svo og fallvötnin sameign allra landsmanna.

Segja má sem svo, virðulegi forseti, að við séum að stíga hér örlítið skref í áttina að því að festa þetta inn kannski ómeðvitað, að hafa það svoleiðis en krefjast þess að ákveðið gjald komi fyrir. Þá á ég við veiðileyfagjald fyrir fiskinn í sjónum. Og nýverið var flutt frumvarp í Alþingi um svokallaða þriðju kynslóð farsíma, að fram skuli fara útboð varðandi það og greiðast til ríkisins, til samfélagsins, fyrir notkun á þeirri auðlind.

Hér er líka fjallað um að skoða möguleika á nýtingu nýrrar tækni til kosninga. Vegna þess að dagurinn í dag er kosningadagur í Bandaríkjunum vil ég segja að ég vona að Bandaríkjamenn klúðri ekki kosningum sínum með nýrri tækni að menn fari hér fleiri ár aftur í tímann og hræðist að taka upp nýja tækni við kosningar eftir þennan dag.

Ég ætla að sleppa því hér að ræða það að framselja ríkisvald til alþjóðastofnana. Auðvitað er hárrétt að taka það upp núna vegna þess að e.t.v. neyðumst við til þess að ganga í Evrópusambandið eftir einhver ár. Þá finnst mér betra að vera búinn að vinna þá vinnu sem nauðsynleg er gagnvart stjórnarskránni í tæka tíð þannig að það sé þá orðið virkt og ekki þurfi að vinna í einhverjum spreng þegar að því kemur.

Að lokum, virðulegi forseti, langar mig að fara í einn lið sem snýr að því að gera landið allt að einu kjördæmi. Ég eins og aðrir þingmenn Samfylkingarinnar er hlynntur því að gera landið að einu kjördæmi, að jafna atkvæðisrétt manna sama hver þeir búa á landinu. En ég vil gera það í framhaldi af því að við höfum viðurkennt að allir eigi að búa við sömu lífskjör. Ég vil með öðrum orðum jafna lífskjör í landinu til þess að jafna atkvæðisvægi í beinu framhaldi af því. Ég vil gera þetta samhliða. Virðulegi forseti. Mér finnst það ekki bráðnauðsynlegasta atriðið að jafna atkvæðisrétt á meðan ýmislegt annað í þjóðfélaginu er á þann veg að mjög hallar á þá sem taldir eru hafa örlítið meira atkvæðavægi en hinir sem búa á höfuðborgarsvæðinu.

Skal ég nefna nokkur dæmi. Ríkið á og rekur heilbrigðisþjónustuna í landinu, hátæknisjúkrahús í Reykjavík o.s.frv. Engum dettur í hug að byggja upp mörg hátæknisjúkrahús eða sjúkrahús í hverju einasta byggðarlagi landsins. Þetta, að sækja sér aðgang að heilbrigðisþjónustunni, má jafna í gegnum skattkerfið.

Sama má segja um menntun og við stígum ákveðin skref í þá átt þó svo að betur megi fara. Mér virðist að menn hafi sama rétt til að sækja um og fá jafnhá lán hjá Lánasjóði íslenskra námsmanna hvort sem þeir sækja Háskóla Íslands, Háskólann á Akureyri eða Bifröst. Þarna er verið að jafna aðgang að námi án tillits til þess hvar skólinn er og það er gott.

Þetta gildir hins vegar ekki til dæmis um framhaldsskóla. Fyrir foreldra að senda ungling sinn í framhaldsskóla getur kostað stórfé í ákveðnum byggðarlögum. Lítið skref er stigið í þá átt að jafna þennan námskostnað og betur má ef duga skal vegna þess að töluvert hallar á þá sem hafa meira atkvæðavægi. Þeir hafa minni jöfnun hvað þetta varðar.

Ríkið beitir hins vegar þeirri aðferð að nota sömu skattprósentu sama hvar er á landinu. Ég greiði sama tekjuskatt á Siglufirði, sömu skattprósentu og þeir sem búa á höfuðborgarsvæðinu og það er auðvitað alveg hárrétt. Ríkið hefur stigið ákveðin skref til þess að hafa sömu verðskrá milli höfuðborgarsvæðis og landsbyggðar. En þar líka má gera betur en verið hefur.

Virðulegi forseti. Ef við göngum í að virkja þessi jafnréttissjónarmið sem ég tek sannarlega undir þá vil ég, svo að það komi skýrt fram, að við gerum það á öllum sviðum. Það gerum við auðvitað best með því að fólk sitji við sama borð við að sækja þá þjónustu sem ríkinu ber að leggja fram, eins og ég tók hér fram um heilbrigðisgeirann og það t.d. að stunda nám, sækja sér menntun. Þetta er mjög mikilvægt atriði. Þess vegna segi ég að um leið og við fjöllum um 100% jafnt atkvæðavægi milli allra landsmanna, sem við gerum best með einu kjördæmi — og ég tek skýrt fram að ég er sammála því — þá verðum við í leiðinni að jafna lífskjörin svo í landinu sem mest má og ganga þá skref í átt til jafnaðar í þeim efnum líka.