131. löggjafarþing — 16. fundur,  2. nóv. 2004.

Breytingar á stjórnarskrá.

9. mál
[15:11]

Guðjón A. Kristjánsson (Fl):

Hæstv. forseti. Málið sem hér hefur verið til umræðu er að mörgu leyti þarft mál og merkilegt. Lagt er til að stjórnarskráin komi nánast öll til endurskoðunar. Ég tel að sjónarmið samfylkingarmanna, flutningsmanna þessa frumvarps, og okkar sem störfum í Frjálslynda flokknum fari að mörgu leyti saman í þessum málum. Það vill svo til að við höfum flutt tillögu til þingsályktunar um kosningar til Alþingis, um að gera landið að einu kjördæmi. Sjónarmið okkar eru því hin sömu í afstöðu okkar til þess. Við höfum og iðulega tekið upp að að sjálfsögðu ætti að festa í stjórnarskránni ákvæði um að auðlindir Íslands, sameiginlegar auðlindir, væru þjóðareign. Við teljum að það beri að festa í stjórnarskrá.

Ég sé hins vegar í greinargerð Samfylkingarinnar á einum stað eitthvað á þá leið að núverandi ríkisstjórn hafi sýnt þessu atriði nokkurn áhuga og meira að segja stigið skref í þá átt. Ég held ég verði nú að lýsa vonbrigðum mínum með það hve ríkisstjórnin hefur lítið aðhafst í þessum málum. Ég sé satt að segja ekki að hæstv. ríkisstjórn sé með neina tilburði í þá veru, á því kjörtímabili sem nú stendur yfir, að setja slík ákvæði inn í stjórnarskrá. Betur ef satt væri.

Ég tek hins vegar undir það sem sagt er í tillögunni um að festa í stjórnarskrá ákvæði um sameiginlegar auðlindir landsmanna. Ég hef haft sérstakan áhuga á því varðandi auðlindir í sjó, fiskstofna okkar, að þeir séu sameign þjóðarinnar. Ég tel algjörlega skýrt að nýting útgerðarmanna á aflaheimildum þeirra sé nýtingarréttur en ekki eignar- og söluréttur. Ég teldi gott að staðfesta það í stjórnarskrá.

Almennt tek ég undir efni þeirrar tillögu sem hér er til umræðu, um það að skipa nefnd níu manna sem fari yfir þessi mál og þessa endurskoðun. Hins vegar þarf að ræða fjölmargt í því sambandi. Að því er m.a. vikið í tillögunni.

Það er full ástæða til að gera að umræðuefni stöðu stjórnmálaflokkanna í landinu eins og hv. þm. Kristinn H. Gunnarsson vék að í ræðu sinni áðan.

Mér finnst það mikið áhyggjuefni og hefur lengi fundist að stjórnmálaflokkar skuli ekki vera með opið bókhald og þar sjáist hvernig flokkarnir eru styrktir, hvaðan þeir fá fjármagn sitt o.s.frv. og að almenningur geti fengið að sjá með hvaða hætti stjórnmálaflokkarnir fá þá fjármuni sem renna til starfsemi þeirra því að iðulega hefur farið fram umræða í þjóðfélaginu um að stjórnmálaflokkar fái mismunandi mikið fé frá ákveðnum hagsmunaaðilum.

Ég hef áður sagt í þessum ræðustól að ég heyrði það í síðustu kosningabaráttu að ákveðin öfl hér á landi hefðu tekið sér það fyrir hendur að tryggja að Framsóknarflokkurinn fengi mikið fé til kosningabaráttu sinnar til að viðhalda mætti því stjórnarmunstri sem nú er í landinu.

Við upplifum þessa dagana, virðulegi forseti, fréttir af störfum olíufurstanna, ef hægt er að orða það svo, þar sem menn hafa algjörlega brugðist því trausti sem til þeirra var borið við meðferð fjármuna frá almenningi og ákvarðanir um hvað almenningur í landinu og atvinnureksturinn ætti að greiða fyrir ákveðna þjónustu. Ég dreg enga dul á það að ég óttast mjög að víðar sé pottur brotinn í þjóðfélaginu í starfsemi atvinnurekstrar, félagasamtaka og stjórnmálaflokka en í því máli sem Samkeppnisstofnun hefur verið að skoða núna varðandi olíuviðskiptin hér á landi. Og ég held að ekki sé hægt að víkja að þessari umræðu öðruvísi en að segja bara eins og það kemur manni fyrir sjónir eftir að hafa gluggað dálítið í þessa þúsund blaðsíðna skýrslu að þá kemst maður helst að þeirri niðurstöðu að olíufélögin hafi rekið ákveðna mafíustarfsemi á Íslandi og að sú starfsemi hafi jafnvel náð út fyrir landsteinana og til annarra landa.

Ég er ekki að segja með þessu að ég sé að jafna stjórnmálaflokkunum við þetta, að með því að vera með falið bókhald sé um slíkt að ræða en ég tel að sú umræða sem nú fer fram gefi fyllilega tilefni til þess að þjóðin eigi kröfu á því að þær stofnanir, stjórnmálaflokkarnir sem eru undirstaða lýðræðisskipulags okkar, sjái til þess að bókhald þeirra verði opnað og það sé opið almenningi. Feluleikur með grundvöll stjórnmálaflokkanna að því er varðar fjármögnun þeirra og fjárhagsstöðu getur ekki haldið áfram miðað við þær uppákomur sem við upplifum í okkar ágæta þjóðfélagi um þessar mundir. Ég tel að þeir forustumenn í olíufélögunum sem þar hafa starfað með þeim ósköpum sem upplýst hefur verið séu ekki hæfir til trúnaðarstarfa fyrir annað fólk eins og þeir hafa komið fram. Þetta vildi ég láta koma fram í umræðunni

Hið misjafna atkvæðavægi sem löngum hefur verið gert að umræðuefni í þjóðfélaginu og verið notað sem afsökun fyrir því að landsbyggðin gæti hugsanlega haft minni réttindi í einhverju öðru, m.a. í heilbrigðiskerfinu, vegakerfinu og öðrum aðstæðum, tel ég að eigi að afnema og að gera eigi landið að einu kjördæmi, það sé engin ástæða til að viðhalda þeim rökum að völdin séu í Reykjavík vegna þess að atkvæðavægið sé misjafnt.