131. löggjafarþing — 16. fundur,  2. nóv. 2004.

Stofnbrautakerfi fyrir hjólreiðar.

28. mál
[17:18]

Einar K. Guðfinnsson (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Hér er hreyft máli sem er á margan hátt athyglisvert. Þótt hv. þm. hafi haft orð á því að þetta sé ekki spurning um hreyfingu eða útivist þá snýst málið engu að síður um það öðrum þræði. Hjólin eru vissulega samgöngutæki en eru líka tæki til að komast í hreyfingu og útivist sem er út af fyrir sig mjög jákvætt.

Ástæðan fyrir því að ég kveð mér hljóðs er sú að í tillögunni er talað um að koma beri upp sérstöku stofnbrautakerfi fyrir hjólreiðar sem ríkisvaldið sjái um eða taki þátt í að kosta í samstarfi við sveitarfélög. Við vitum að það er almennt þannig með stofnbrautakerfi fyrir vegi að umferðin sem stendur undir þeim kostnaði, þeirri fjárfestingu. Þetta er auðvitað dálítið sérstakt varðandi stofnkostnað eða innri mannvirki í samfélagi okkar, þ.e. umferðin stendur undir vegunum og við leggjum sérstök gjöld á bíla eða öllu heldur á notkun á bílum.

Ég vildi spyrja hv. þm. hvort hún hefði velt því fyrir sér með hvaða hætti ætti að standa undir þeirri fjárfestingu sem falist gæti í þessu stofnbrautakerfi fyrir hjólreiðar, hvort hv. þm. sjái almennt fyrir sér að það yrði hluti af stofnbrautauppbyggingu í landinu og bílaumferðin greiddi þá fyrir það. Eða sér hv. þm. fyrir sér að hjólreiðarnar standi undir uppbyggingu á stofnbrautakerfinu alveg eins og við höfum varðandi bílana?

Mér finnst að þetta þurfi að liggja fyrir þegar málið kemur til nefndarinnar, a.m.k. einhverjar hugmyndir í þá veru. Ég leggst ekki gegn þessu máli, nema síður sé. Ég vildi hins vegar að málið yrði a.m.k. sett í eðlilegt samhengi, að við skoðuðum það í samhengi við uppbyggingu stofnbrauta í landinu að öðru leyti.