131. löggjafarþing — 16. fundur,  2. nóv. 2004.

Staðgreiðsla opinberra gjalda og virðisaukaskattur.

35. mál
[17:56]

Flm. (Einar K. Guðfinnsson) (S):

Virðulegi forseti. Ég mæli fyrir frumvarpi til laga um breytingu á lögum um staðgreiðslu opinberra gjalda, nr. 45/1987, og lögum um virðisaukaskatt, nr. 50/1988, með áorðnum breytingum.

Flutningsmenn ásamt mér eru þingmenn úr öllum stjórnmálaflokkunum, hv. þm. Össur Skarphéðinsson, Sigurður Kári Kristjánsson, Magnús Stefánsson, Arnbjörg Sveinsdóttir, Ögmundur Jónasson, Drífa Hjartardóttir, Guðjón A. Kristjánsson, Sólveig Pétursdóttir, Pétur H. Blöndal, Guðlaugur Þór Þórðarson og Guðjón Hjörleifsson.

Kjarni þessa frumvarps er sá að gert er ráð fyrir að lágmarksfésekt við tilteknum skattalagabrotum sem lögfest var árið 1995 eigi ekki við þegar um svokölluð vanskil á vörslufé er að ræða og brotamaður hefur skilað réttilega skilagrein svo að ljóst má vera að ekki sé um að ræða tilraun til undanskots.

Ástæða er til að leggja á það áherslu að vanskil á vörslufé vegna greiðsluerfiðleika eru mjög ólík öðrum skattalagabrotum. Slík brot hafa sjaldnast þau einkenni sem algengt er að fylgi því sem höfum kallað skattsvik í daglegu tali, svo sem vanhöld á færslu bókhalds. Ekki er heldur fyrir að fara þeirri leynd sem einkennir skattsvik og önnur skattalagabrot. Oft eiga brotlegir við þessar aðstæður sér málsbætur umfram þá sem fremja önnur skattalagabrot og skýringarnar eru jafnan þær að forsvarsmenn fyrirtækja hafa lent í greiðsluerfiðleikum sem oft enda með gjaldþroti.

Þó svo að þessi brot séu annars eðlis þá höfum við illu heilli sett upp þannig regluverk að það hefur leitt til þess að menn fá gríðarlega þunga dóma. Í fyrsta lagi er um að ræða lágmarksfésektir sem eru mjög háar. Menn geta einfaldlega sett sig í spor fólks sem hefur átt í greiðsluerfiðleikum sem hafa t.d. endað með gjaldþrotum og hafa þess vegna haft það í för með sér að það hefur ekki getað staðið skil á vörslufénu. Það er augljóst þegar um er að ræða mjög háar sektir að menn eru ekki í neinum færum til þess að borga þær. Þá er það oft og tíðum þannig að þeir hafa fengið vararefsingu sem er fangelsi. En þegar svo háttar til að menn hafa ekki getað borgað sektina og enda í fangelsi vegna vararefsingar þá eiga þeir heldur ekki möguleika á reynslulausn eins og er þó almenna reglan í okkar lögum.

Við höfum orðið vitni að miklum mannlegum harmleik víða í þjóðfélaginu þar sem þetta hefur gerst. Menn hafa lent í greiðsluerfiðleikum, hafa verið að berjast til hins ýtrasta, til síðasta blóðdropa, í rekstri sínum til að koma í veg fyrir gjaldþrot til að hægt sé að halda áfram rekstri, oft og tíðum mikilvægum atvinnurekstri sem snertir hagsmuni fjölda fólks, m.a. í litlum byggðarlögum. Þetta hefur leitt til þess að menn hafa dregið að greiða vörslufé í þeirri von að úr mundi rætast með rekstur fyrirtækisins. Menn hafa haldið bókhald, skilað skýrslum og reynt að vinna með þeim hætti að hægt væri að halda atvinnurekstrinum áfram og síðan þegar í þrot er komið standa menn frammi fyrir ókleifum skafli, eru búnir að rýja sjálfa sig inn að skinni, setja sjálfa sig í ábyrgð, kreista út allt lánsfé sem þeir hafa haft með tryggingunum sem þeir hafa boðið fram og eiga þess vegna enga möguleika á að standa skil á þessu vörslufé þegar í óefni er komið. Það er augljóst mál að þeir sem eru komnir í slíkar aðstæður eru ekki hinir dæmigerðu skattsvikarar sem við viljum ná utan um. Þetta er fólk sem lendir í óviðráðanlegum aðstæðum sem enginn getur gert við.

Í ýmsum tilvikum er um að ræða yngra fólk. Það er líka um að ræða fólk sem hefur verið að setja á stofn það sem menn hafa kallað sprotafyrirtæki og oftar en ekki hefur verið talað af mikilli velvild um slík fyrirtæki úr þessum ræðustól vegna þess að menn hafa séð að forsendan fyrir því að okkur miði eitthvað áfram í þessu þjóðfélagi er að til staðar sé fólk sem er tilbúið til þess að hætta eigin fjármunum í því skyni að byggja upp atvinnurekstur. Við höfum orðið vitni að því m.a. í þeirri uppbyggingu sem varð hér fyrir fáeinum árum svo ég taki dæmi í nýtækni, tölvum og slíkri þjónustu sem reis upp og hafði heilmikið að segja um vöxt og viðgang þjóðfélagsins. Síðan þegar sló í bakseglin — þessi fyrirtæki voru oft og tíðum vanfjármögnuð vegna þess að menn trúðu á þann mikla vöxt sem flestir töldu sig sjá fyrir sér í þessum atvinnugreinum — þá gerðist það mjög hratt að mörg fyrirtæki urðu gjaldþrota, mjög margir sem höfðu lagt sig fram og höfðu unnið merkilegt starf og skaffað fólki vinnu, forsvarsmenn slíkra fyrirtækja lentu í vandræðum og verða núna fyrir barðinu á þessari óréttlátu löggjöf.

Þetta mun leiða til þess að fólk sem horfir upp á slíka reynslu hugsar sig tvisvar um áður en það stofnar til nýs atvinnurekstrar. Ég held að það sé ekki góð framtíðarsýn fyrir þjóðfélagið ef okkar best menntaða fólk, unga háskólamenntaða fólkið sem þekkir vel lagaverkið og regluverkið, viðskiptafræðingarnir okkar, ungu lögfræðingarnir okkar, allt þetta unga góða fólk sem við viljum að sé í forsvari í atvinnurekstri, hugsar sig tvisvar um áður en það stofnar eigin fyrirtæki og fer frekar í skjól stóru fyrirtækjanna þar sem engin hætta er á að menn lendi í að verða rukkaðir um vörslufé.

Þess vegna megum við ekki, virðulegi forseti, ganga þannig frá löggjöfinni, jafnvel þó við viljum ná utan um og koma í veg fyrir að menn stundi skattsvik, að við hræðum venjulegt fólk frá því að taka þátt í atvinnurekstri sem í eðli sínu hlýtur alltaf að vera áhættusamur.

Virðulegi forseti. Ég ætla ekki að hafa mjög mörg orð um þetta mál. Þetta er mál sem hefur fengið nokkra umfjöllun. Þetta frumvarp var lagt fram í fyrra og var komið til efnahags- og viðskiptanefndar. Það var augljóst af viðtökunum sem það fékk innan nefndarinnar að um það gat tekist mjög breið pólitísk samstaða. Maður varð líka var við í opinberri umræðu sem fór fram um frumvarpið að það átti sér mjög marga velvildarmenn en það er ekki mjög algengt að frumvörp af þessu taginu sem snerta skattamál sem eru ekki mál sem vekja athygli í fyrirsögnum dagblaðanna, kalli á jafnmikil viðbrögð og þetta frumvarp gerði. Þess vegna held ég, virðulegi forseti, að það væri þinginu til sóma og væri mjög í réttlætisátt ef okkur auðnaðist að ljúka þessu máli á næstu vikum. Það hafði fengið efnislega meðferð innan efnahags- og viðskiptanefndar en í bardaganum síðastliðið vor var engin von til að hægt væri að ljúka því. Ég held að allar forsendur séu til þess að efnahags- og viðskiptanefnd, sem ég legg til að fái þetta mál til umfjöllunar, geti lokið því á tiltölulega skömmum tíma og við getum gert það að lögum í allra síðasta lagi nú fyrir jólin.