131. löggjafarþing — 17. fundur,  3. nóv. 2004.

Starfsmenn Bandaríkjahers á Keflavíkurflugvelli.

199. mál
[13:42]

Fyrirspyrjandi (Mörður Árnason) (Sf):

Forseti. Ég þakka hæstv. utanríkisráðherra fyrir upplýsingarnar. Þær sýna svart á hvítu frá yfirvöldum það sem greinar Morgunblaðsins og fréttir af vellinum hafa gefið í skyn, að þrátt fyrir orð fyrrverandi hæstv. utanríkisráðherra um að ekki hafi neinar tilkynningar borist um verulegan samdrátt á næstu árum og að hann hafi í nóvember í fyrra enga ástæðu til að ætla að frekari samdráttur verði, þá fer sá samdráttur fram.

Það bendir til þess að íslensk stjórnvöld, utanríkisráðherrar okkar fyrr og nú, hafi í raun og veru enga hugmynd um hvert stefnir með þessa stöð og þeir hafa heldur engar áætlanir um það hvert stefnir með þessa stöð. Þeir hafa ekki í gangi neina vinnu að því að meta hvernig varnarhagsmunum Íslands er best borgið á þeim nýju tímum sem upp eru runnir og eru í þeim skrefum að senda bréf og erindi vestur á bóginn og biðja þar um áheyrn og reyna með einhverjum persónulegum hætti að bjarga því sem bjargað verður af leifum af gömlum tíma, því stöðin í Keflavík er það fyrst og fremst í núverandi ástandi. Það telja Bandaríkjamenn og hyggjast ekki hafa fyrir því að vinna það verk sem Íslendingar eiga að vinna og sem okkur ber að vinna, sem okkur er skylt að vinna og hæstv. utanríkisráðherra á að fara í fararbroddi fyrir, að skilgreina varnarhagsmuni Íslendinga í framtíðinni og skapa um það einingu og sátt í íslenskum stjórnmálum hvernig því skuli háttað, hvað við eigum að taka að okkur sjálfir og hvaða skuldbindingar eiga að fylgja varnarsamningnum við Bandaríkin og hvernig við eigum að hafa samstarf við aðra bandamenn okkar um varnar- og öryggismál Íslands.