131. löggjafarþing — 17. fundur,  3. nóv. 2004.

Starfsmenn Bandaríkjahers á Keflavíkurflugvelli.

199. mál
[13:44]

utanríkisráðherra (Davíð Oddsson) (S):

Hæstv. forseti. Vegna þessara orða vil ég taka fram að það er algerlega ljóst að bæði núverandi hæstv. forsætisráðherra sem utanríkisráðherra og ég í fyrra starfi mínu höfum fylgt því mjög fast fram gagnvart samherjum okkar innan Atlantshafsbandalagsins annars vegar og gagnvart Bandaríkjamönnum hins vegar að gildi samstarfsins í NATO og varnarsamningsins sérstaklega verði í heiðri haft og þær grundvallarforsendur sem liggja á bak við veru okkar í Atlantshafsbandalaginu og varnarsamningsins við Bandaríkin. Þessu höfum við fylgt báðir fram, vil ég leyfa mér að fullyrða, af mikilli einurð og eindrægni.

Auðvitað er það þannig og það þekkja menn að málin eru þannig vaxin og þeirrar gerðar að þau eru ekki rædd opinberlega með sama hætti og önnur þau dægurmál sem uppi eru. Þetta er viðurkennt á Íslandi til að mynda með sérstakri sérstöðu utanríkismálanefndar þingsins umfram allar aðrar nefndir í þinginu. Ég vil leyfa mér að halda því fram að við höfum báðir tveir, hæstv. núverandi forsætisráðherra, þáverandi utanríkisráðherra og ég, hvor í sínu starfi, fylgt þessum sjónarmiðum fram, meginsjónarmiðum hvers ríkis, ekki gömlum sjónarmiðum heldur sígildum og sínýjum sjónarmiðum, að tryggja öryggi borgara ríkisins gegn hvers konar vá út á við. Þessu höfum við fylgt fram af einurð og festu og ég andmæli því að það hafi ekki verið gert.