131. löggjafarþing — 17. fundur,  3. nóv. 2004.

Þjóðgarður norðan Vatnajökuls.

118. mál
[13:57]

Jón Gunnarsson (Sf):

Frú forseti. Ég vil byrja á því að þakka hv. þm. Merði Árnasyni fyrir að hreyfa þessu máli í þingsölum og einnig hæstv. umhverfisráðherra fyrir þau svör sem fram komu. Ég hefði þó kannski viljað heyra aðeins skýrari svör frá hæstv. ráðherra. Það er rétt sem fram kom að hér er um umfangsmikið verkefni að ræða og m.a. þarf að ráðast í samninga við landeigendur og ræða við hlutaðeigandi sveitarfélög.

Mér fannst vanta upp á að hæstv. ráðherra segði okkur hvenær sú vinna gæti í raun farið í alvöru fram. Þó að ekki sé búið að taka ákvörðun í ríkisstjórn langar mig að spyrja hæstv. ráðherra hverjar tillögur hennar í því máli séu.

Einnig kom fram að til verkefnisins er 3,1 millj. á fjárlögum ársins 2005. Mig langar að spyrja hæstv. umhverfisráðherra hvort hún muni leggja til frekari fjárveitingar í þetta verkefni á árinu 2005.