131. löggjafarþing — 17. fundur,  3. nóv. 2004.

Þjóðgarður norðan Vatnajökuls.

118. mál
[13:59]

Fyrirspyrjandi (Mörður Árnason) (Sf):

Forseti. Ég þakka fyrir þessar stuttu umræður og sérstaklega fyrir svör umhverfisráðherra sem voru eins skýr og glögg og þau gátu orðið. Var við því að búast af hæstv. umhverfisráðherra.

Úr því að það er bara 3,1 millj. í þeim potti sem til þessa er ætlaður hljóta svörin við fyrirspurn hv. þm. Jóns Gunnarssonar að vera þannig að það sé ekki fyrr en á árinu 2006 sem starfið á að hefjast. Ég er ekki ánægður með það og ég hvet hæstv. umhverfisráðherra til að beita sér í málinu þannig að starfið hefjist fyrr. Ég tel í raun og veru — hér var minnst á Kárahnjúka og ég er sammála því að skuggi hvíli yfir svæðinu af þeirra völdum — að þetta hafi verið kannski einhver afbötun, einhver leið til að láta sárin gróa og semja um einhvers konar sættir í því erfiða máli.

Þá er kannski rétt að hraða verkinu í kringum það. Ég hvet hæstv. umhverfisráðherra til að reyna að fá ríkisstjórnina til að taka þessa ákvörðun. Það skiptir auðvitað miklu máli að hæstv. umhverfisráðherra fylgi fram þeirri viljayfirlýsingu, þeirri stefnumótandi yfirlýsingu sem ég tel að hún hafi gefið í dag, hún sé þessu sammála, hún stefni að Vatnajökulsþjóðgarði einum saman í lokin í svipuðum dúr og sagt er frá í skýrslu nefndarinnar. Ég tel að ég hafi haft nokkuð fyrir snúð minn í þessari fyrirspurn.

Svo er rétt að leiðrétta hv. þm. Ísólf Gylfa Pálmason með það að ég hafi verið að veitast að því hvernig menn verðu tíma sínum. Það var ég ekki að gera í umræðum um kjördæmaviku, heldur var ég að finna að tímasetningu kjördæmavikunnar þrem vikum eftir að þing hefst eftir fjögurra mánaða sumarhlé svo að það sé á hreinu.