131. löggjafarþing — 17. fundur,  3. nóv. 2004.

Sláturhús í Búðardal.

141. mál
[14:12]

Sigurjón Þórðarson (Fl):

Frú forseti. Hæstv. landbúnaðarráðherra kennir um reglugerð um slátrun og meðferð sláturafurða. En hefur hann gætt jafnræðis í því hvernig hann hefur framfylgt reglugerðinni? Ég efast um að svo sé, ég stórefast um það. Það er alvarlegur hlutur þegar hæstv. ráðherra fer ekki að jafnræðisreglu og er jafnvel að brjóta á atvinnuréttindum byggðarlaga sem berjast í bökkum með að halda atvinnu í byggðarlaginu.

Mér finnst það með ólíkindum að hann sé hér að skjóta sér á bak við reglugerðina, sérstaklega í ljósi þess að hann hefur dregið að svara þeim sem stendur hér hvernig hann hafi framfylgt reglugerðinni. Við eigum von á að svar berist í þingið innan tíðar og það verður þá fróðlegt að sjá hvort hann hafi gætt jafnræðis. Ég efast um það, enda kemur fram í grein sem ég ritaði í Morgunblaðinu í dag að þeir sem reka sláturhúsið hafa farið fram á umræddar upplýsingar og ekki fengið nein svör.