131. löggjafarþing — 17. fundur,  3. nóv. 2004.

Sláturhús í Búðardal.

141. mál
[14:18]

landbúnaðarráðherra (Guðni Ágústsson) (F):

Hæstv. forseti. Kannski sem betur fer rekur landbúnaðarráðuneytið ekki sláturhús. Það rekur ekki heldur mjólkurbú. Þessi fyrirtæki eru í höndum bændanna sjálfra. Það vita hv. þm. Og ég er sannfærður um að ef þessi atvinnuvegur hefði ekki gengið í gegnum hin miklu gjaldþrot og erfiðleika eins og hann hefur gert síðustu árin í kjötbaráttunni sem hefur geisað væri staðan öll önnur. Ef við réðum því hvar húsin væru og gætum stillt þeim upp væri þeim öðruvísi stillt upp en er gert í dag. Þetta er það sem bændurnir standa frammi fyrir og verða að vinna úr.

Hv. þm. Sigurjón Þórðarson starfaði við heilbrigði, var heilbrigðisfulltrúi í sinni sveit áður en hann var kjörinn á þing. Hann veit meira um þessi mál en margur annar og hann þekkir jafnræðisregluna. Hann þekkir það líka að nágrannar Dalamanna hafa lagt tugi og hundruð milljóna í að fullnægja reglum um sín sláturhús. Það er líka jafnræðisregla þegar kemur að Dalabyggð. Málið er flóknara en það sýnist í fljótu bragði en ég vona sannarlega að Dalamenn nái tökum á sínu húsi, geti endurbætt það og gert slátrun fjárins að atvinnu sinni heima fyrir. Gegn því stend ég ekki. Sem landbúnaðarráðherra verð ég fyrst og fremst að fara að þeim lögum og þeim reglum sem gilda um þetta.

Ég get tekið undir með hv. þm. Þórunni Sveinbjarnardóttur. Ég vildi á ný sjá lítil sláturhús víðar og kannski koma þau síðar, lítil hús sem hafa sérslátrun á hendi og matvælavinnslu í kringum hana. Það er ekkert útilokað. Þetta er allt bundið við lög og reglur, að menn fari að þeim. Málið í Dölunum snýst um það. Ég hef sagt Dalamönnum það sjálfum og þeir hafa viðurkennt að ég hef alltaf talað af hreinskilni við þá, og ég vona af drengskap og þeim sannleika að þeir verði að fara að reglum eins og aðrir hvað þetta varðar.