131. löggjafarþing — 17. fundur,  3. nóv. 2004.

Styrkur til loðdýraræktar.

195. mál
[14:21]

Fyrirspyrjandi (Sigurjón Þórðarson) (Fl):

Frú forseti. Nýlega samþykkti ríkisstjórnin að styðja við bakið á loðdýraræktinni og veita henni 116 millj. kr. í styrk. 20 millj. koma til greiðslu á þessu ári og hefur verið lagt til að nánast allri upphæðinni verði varið til niðurgreiðslu á loðdýrafóðri. Á árinu 2003 voru reknar í landinu átta fóðurstöðvar og hafa fjórar þeirra fóðurframleiðslu sem aðalstarfsemi. Fjórar eru einkareknar og framleiða fóður til eigin nota sem hluta af búrekstrinunum.

Einkareknu fóðurstöðvarnar framleiddu á síðasta ári 1.950 tonn sem er 26% af heildarframleiðslu í landinu en sameiginlegu fóðurstöðvarnar framleiddu 5.500 tonn af fóðri sem er þá afgangurinn, 74% af heildarframleiðslunni. Helsti vandi sameiginlegu fóðurstöðvanna er að afkastageta þeirra er ekki fullnýtt, einungis 21% er nýtt af afkastagetunni. Landbúnaðarráðuneytið hefur falið Sambandi íslenskra loðdýraræktenda að búa til úthlutunarreglur þar sem á að úthluta 20 millj. af ríkisstyrknum sem áður var getið um og voru samþykktar reglur sem mismuna algjörlega og mjög gróflega þessum einkareknu. Lagt er til að þær sem framleiða fjórðunginn fái ekki eina krónu af styrknum en þær sem framleiða 74% fái allan ríkisstyrkinn. Þetta er náttúrlega mjög furðulegt og stangast á við allar jafnræðisreglur svo við rifjum það upp hér enn og aftur.

Það er margt sem bendir til að einkareknu stöðvarnar séu síst óhagkvæmari og þess vegna getur það varla verið í öllu hagræðingartali hæstv. landbúnaðarráðherra að verið sé að leggja stein í götu þeirra sem standa betur að rekstrinum, eða síst verr. Því vil ég spyrja hæstv. landbúnaðarráðherra í ljósi alls jafnræðis sem hefur verið minnst á hér:

Hvernig munu stjórnvöld tryggja að jafnræðis verði gætt við úthlutun á 116 millj. kr. styrk til loðdýraræktar sem nýlega var ákveðinn?