131. löggjafarþing — 17. fundur,  3. nóv. 2004.

Styrkur til loðdýraræktar.

195. mál
[14:29]

Fyrirspyrjandi (Sigurjón Þórðarson) (Fl):

Frú forseti. Ég þakka hæstv. landbúnaðarráðherra fyrir svörin og vil taka þátt í gleði hans yfir að mikill árangur sé í loðdýraræktinni. Ég vonast svo sannarlega til að þessi atvinnugrein eigi eftir að braggast en ástæðan fyrir því að ég bar upp spurninguna var ekki af einhverjum ókunnugleika, heldur stóð til að þeim sem rækju einkarekna fóðurgerð yrði mismunað.

Ég er ánægður yfir því að landbúnaðarráðuneytið ætli að koma málum þannig fyrir að svo verði ekki. Ég tel það mjög nauðsynlegt. Ég taldi þó allt eins víst að hæstv. landbúnaðarráðherra gæti hugsað sér að mismuna vegna ýmissa verka upp á síðkastið, m.a. þess sem við vorum að ræða hér fyrr, hvernig hann hefur framfylgt reglum um slátrun og sláturhús. Þess vegna tel ég að það hafi verið mjög brýnt að fá það á hreint að þessum einkareknu stöðvum verði ekki mismunað. Ég fagna því.