131. löggjafarþing — 17. fundur,  3. nóv. 2004.

Mannréttindaskrifstofa Íslands.

200. mál
[14:44]

Fyrirspyrjandi (Kolbrún Halldórsdóttir) (Vg):

Hæstv. forseti. Ég hef ákveðið að leggja spurningar fyrir hæstv. dómsmálaráðherra sem varða Mannréttindaskrifstofu Íslands. Ástæða þess er sú að í fréttum fyrir skemmstu var vakin athygli á því að Mannréttindaskrifstofa Íslands hefði verið svipt helmingi þess fjárframlags sem hún hefur notið frá ríkinu síðan 1998, en þá var sem kunnugt er gert samkomulag við nokkurn fjölda félagasamtaka sem starfa á sviði mannréttindamála um rekstur skrifstofunnar. Þetta eru t.d. samtök á borð við Rauða krossinn, Barnaheill, Samtökin 78, Öryrkjabandalagið og fleiri.

Í nýframlögðu fjárlagafrumvarpi ríkisstjórnarinnar fyrir næsta ár er ekki gert ráð fyrir því að dómsmálaráðuneytið leggi Mannréttindaskrifstofunni til þær 4 milljónir sem hún hefur notið þaðan á undanförnum árum en skrifstofan nýtur sömuleiðis framlags frá utanríkisráðuneytinu að upphæð 4 milljónir. Það er óbreytt samkvæmt fjárlagafrumvarpinu.

Í fjölmiðlum hefur hæstv. dómsmálaráðherra gefið þá skýringu að forsendur þessar fjárveitingar séu brostnar þar sem Mannréttindaskrifstofan hafi ekki staðið við samkomulagið frá 1998 með því að hætta að greiða Mannréttindastofnun Háskóla Íslands 15% af fjárveitingum skrifstofunnar.

Nú ber þess að geta að árið 1998 þegar þetta samkomulag var gert voru þessir tveir aðilar, þ.e. Mannréttindaskrifstofa Íslands og Mannréttindastofnun Háskóla Íslands báðar að óska eftir fjárframlagi frá hinu opinbera til sinnar starfsemi. Það varð að ráði eftir samkomulag og samtöl aðila að þetta kæmi í einni fjárveitingu, þ.e. frá tveimur ráðuneytum en í sameiginlegri fjárveitingu til Mannréttindaskrifstofunnar og Mannréttindastofnun Háskóla Íslands var gert að eiga samstarf með sín mál við Mannréttindaskrifstofu Íslands.

Kannski hefur þetta samkomulag eða samstarf aldrei gengið almennilega upp vegna þess að þó þessir tveir aðilar starfi báðir á sviði mannréttindamála þá hafa þeir ekki starfað á sama vettvangi og hlutverk Mannréttindastofnunar Háskóla Íslands verið annað samkvæmt stofnsamþykkt hennar. Þess ber líka að geta að Lögmannafélag Íslands og Dómarafélag Íslands sem eiga aðild að Mannréttindastofnun Háskóla Íslands hafa spurt sjálf sig hvort þau eigi að starfa svo náið með frjálsum félagasamtökum í Mannréttindaskrifstofunni.

En það er sem sagt margt við þetta að athuga að mínu mati, hæstv. forseti. Mér sýnist utanríkisráðuneytið ekki vera á sama máli og hæstv. dómsmálaráðherra hvað þetta varðar af því að þar eru engar breytingar gerðar á framlögunum samkvæmt frumvarpinu. Mér virðist það líka nokkuð ámælisvert og jafnvel ömurleg stjórnsýsla að gera svona lagað án samráðs við fólk. Í þriðja lagi hvarflar líka að manni að hæstv. dómsmálaráðherra sé að refsa Mannréttindaskrifstofu Íslands fyrir neikvæðar umsagnir sem skrifstofan hefur gefið um stjórnarfrumvörp upp á síðkastið.

En spurningar þær sem ég hef lagt fyrir hæstv. dómsmálaráðherra er að finna á þingskjali þannig að ég tel ekki ástæðu til að eyða ræðutíma mínum í að lesa þær upp hér.