131. löggjafarþing — 17. fundur,  3. nóv. 2004.

Mannréttindaskrifstofa Íslands.

200. mál
[14:52]

Kristrún Heimisdóttir (Sf):

Frú forseti. Ég þakka hv. þm. Kolbrúnu Halldórsdóttur fyrir þessa fyrirspurn og hæstv. ráðherra fyrir hans svör.

Mannréttindastofnun Íslands vinnur mjög merkilegt frumkvæðisstarf sem hefur náð að skjóta rótum og byggjast upp á Íslandi fyrir styrk frá hinu opinbera. Hið alþjóðlega net sérfræðinga sem Mannréttindaskrifstofan hefur aðgang að gegnum sambærilegar skrifstofur erlendis gerir það að verkum að sérlega skynsamlegt er að veita til hennar almannafé. Þetta er ómetanlegt fyrir íslenskt samfélag sem byggir mjög á og þarf að fylgjast með alþjóðlegum straumum í mannréttindamálum. Ég fagna því þess vegna ef svar hæstv. dómsmálaráðherra gefur til kynna að fjárhag Mannréttindaskrifstofunnar kunni þrátt fyrir allt, þrátt fyrir þær fréttir sem bárust af þessu máli, að vera borgið til framtíðar og ég skora á hann að halda áfram að styðja þetta merkilega starf og byggja undir það að á Íslandi geti starfað svona sjálfstæð mannréttindaskrifstofa í þeim stíl sem er annars staðar á Norðurlöndum.