131. löggjafarþing — 17. fundur,  3. nóv. 2004.

Mannréttindaskrifstofa Íslands.

200. mál
[14:53]

Bjarkey Gunnarsdóttir (Vg):

Frú forseti. Ég vil einnig þakka hv. þm. Kolbrúnu Halldórsdóttur fyrir þessa fyrirspurn og hæstv. ráðherra fyrir hans svör.

Ég tek undir það sem hér hefur verið sagt um nauðsyn þess að halda úti mannréttindaskrifstofu því að þær fréttir sem við fengum um niðurskurð á framlaginu voru mjög slæmar. Þessar 4 milljónir skiptu höfuðmáli fyrir stofnunina til þess að hún gæti starfað. Auðvitað eru 4 milljónir mjög litlir peningar í fjárlögum sem hlaupa á hundruðum milljarða. Þær skipta hins vegar mjög miklu máli fyrir starfsemi Mannréttindaskrifstofunnar og þá sem þurfa að eiga hana að.

Það sætti vissulega mikilli furðu að heyra að það hefði verið einhliða ákvörðun ráðherra að fella þessi framlög niður því að þannig kom það jú fyrir sjónir í fjölmiðlum og frá forsvarsmönnum skrifstofunnar. Það sem dómsmálaráðherra bar fyrir sig var ósamkomulag við aðila innan Háskóla Íslands.

Við getum ekki búið við það ástand að engin stofnun á borð við Mannréttindaskrifstofuna sé starfandi í landinu. Þetta gildir ekki síst varðandi aðstoð við innflytjendur sem þurfa eðlilega á aðstoð að halda til að þekkja rétt sinn t.d. gagnvart atvinnurekendum og hinu opinbera.